133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[19:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst svarið snubbótt sem hæstv. ráðherra gaf síðasta ræðumanni vegna þess að auðvitað eru þau vandamál sem uppi eru ekki leyst með þessu frumvarpi. Og mér þykir það vont ef hæstv. ráðherra ætlar að klúðra því góða sem er í frumvarpinu með því að vilja ekki standa að því að sjá til þess að framhaldið, sem þarf að vera, komi til líka. Auðvitað á ríkisstjórnin að segja fólkinu í landinu hvað hún vill. Hún hefur ekki gert það. Hæstv. ráðherra lætur það liggja úti í veðrinu hver framtíðin er. Og hvernig er það veður? Það er þannig að orkufyrirtækin ráða því hvar þau ráðast í framkvæmdir. Það er þannig að kosið er um það í Hafnarfirði hvort næsta stóra álver verður byggt upp á Íslandi. Það er þannig að í Keflavík er búið að taka ákvörðun um að það sem er þarnæst í röðinni verði þar, eða fyrst í röðinni ef Hafnfirðingar fella.

Hæstv. ríkisstjórn hefur enga stefnu í málinu. Hún hefur engan ramma þótt hæstv. ráðherra hafi talað um að einhver rammi eigi að vera utan um þessi mál, þá er hann enginn. Hæstv. ráðherra verður að gera betur.

Ef hann ætlar að standa við stóru orðin um sátt við þjóðina þá er það hægt en til þess þarf vilja ríkisvaldsins, ríkisstjórnarinnar. Þannig ættu menn að fara inn í næstu kosningar að menn viti það a.m.k. nákvæmlega hvernig sú stefna á að vera sem er fram undan. Hvað eru menn að kjósa yfir sig í kosningunum? (Gripið fram í: Liggur það ekki nokkuð ljóst fyrir?) Hæstv. ráðherra verður að tala skýrar í þessum málum, annars verður ekki ályktað öðruvísi en að stóriðjan á Íslandi sé frjáls fyrir þá sem vilja.