133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[19:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru í sjálfu sér ekki til lögmætar ákvarðanir fyrir rammaáætlun. Verið er að leggja það til núna að rammaáætlun fari til umfjöllunar á Alþingi. Ég býst við að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir að menn verða þá að taka þann hluta rammaáætlunar sem gert er ráð fyrir að verði notaður á þessu millibilsástandi og skoða hann. Þar eru ýmis spurningarmerki uppi og það er ekki hægt að líta þannig á að einhver niðurstaða sé þar, Alþingi verður að taka þessa ákvörðun.

Ég verð að segja alveg eins og er að það virðist skína út úr því sem hæstv. ráðherra segir að engan bilbug sé á honum að finna, að hafa þessa stefnu frjálsa fyrir þá sem vilja fara í slíkar framkvæmdir inni í framtíðinni, en vill samt ekki lýsa því yfir hver sú stefna er í raun og veru. Ríkisstjórnin virðist ætla að hafa þetta svona í lausu lofti. Ég vara menn við í þessu. Og vegna þess að hæstv. ráðherra hefur talað þannig (Forseti hringir.) að hann vilji tryggja þessu máli framgang þá verður hann að gera betur (Forseti hringir.) ef það á að vera hægt.