133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[19:05]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það og endurtaka að það er stefna ríkisstjórnarinnar að reyna eftir því sem unnt er að tryggja almenn og opin viðskiptaskilyrði á þessum markaði eins og í atvinnulífi og viðskiptalífi yfirleitt. Við gerum okkur hins vegar fulla grein fyrir því að þessi orkumarkaður hefur ýmis sérkenni og einkenni. Við erum lítið samfélag úti í hafi sem veldur því að alltaf verða miklar takmarkanir á þeim markaði og það verður að sjálfsögðu að bregðast við því og ganga þannig frá að vegna markaðsbresta sé hlutverk opinberra stofnana og eftirlitsstofnana alveg sérstaklega sterkt. Gert er ráð fyrir því að Orkustofnun leiki hér mjög mikilvægt hlutverk.

Ég deili ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að við séum að gera ráð fyrir allt of miklu frelsi. Ég lít þvert á móti svo á að það séu mjög rammar skorður á þessum markaði settar og gert sé ráð fyrir mjög virkri aðild eftirlitsstofnana ríkisins og aðhaldi bæði af þeirra hálfu og af hálfu sveitarfélaganna á þeim markaði og tel að það sé nauðsynlegt.