133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[19:41]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. flutningsmanni þessa frumvarps er mjög í mun að geta komið einhverju sáttarorði á þá smíð sem hér liggur fyrir. Það er ekki nema sanngjarnt að ítreka það að að baki frumvarpinu er starf nefndar sem skipuð var m.a. fulltrúum úr öllum þingflokkum og sú nefnd náði málamiðlun sem vísar eða getur vísað fram á veg í þessu máli. Við höfðum tekið framtíðarkaflanum í þessu frumvarpi jákvætt og í sjálfu sér ber að fagna því að fulltrúar ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, skuli hafa þorað að stíga þetta skref sem í honum felst.

Það er hins vegar fullsnemmt að kalla þennan framtíðarkafla einan og sér þjóðarsátt eða farveg fyrir þjóðarsátt eða framvirka þjóðarsátt eða hvaða orðahröngl sem menn vilja nota og inniber orðið þjóðarsátt. Það er vegna þess, forseti, að náttúruvernd hefur ekki verið sett í öndvegi í þessum kafla frumvarpsins. Það eru vissulega þrjár nefndir sem eiga að fjalla um málið og koma upp einhverju sem á að heita verndar- og nýtingaráætlun, en skipulagið er þannig að það er alveg óljóst á hvaða forsendum þessar nefndir eiga að vinna, eins og ég rakti í fyrri ræðu, og hefur ekki verið skýrt fyrir mér þrátt fyrir óskir um það, og það er fullkomlega forsendulaust sem sett er fram hugmyndin um nefnd forsætisráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra sem síðan eigi að vinna úr þessari nefnd það frumvarp eða þingmál sem hér á að leggja fyrir haustið 2010. Um þetta er út í bláinn, eða úti í blánum má kannski segja, um þetta mál vitum við ekki meira en saman er raðað með þeim bókstöfum sem í frumvarpinu eru. Myndin er vissulega fríðari sem þar með er upp dregin en sú sem fyrir lá áður en þessi skýrsla og síðan þetta frumvarp var sett fram.

Það er svo í öðru lagi úrdráttarefni þeim sem aðhyllast náttúruvernd og vilja ná raunverulegri þjóðarsátt um skynsamlega nýtingu, þar á meðal með vernd á þeim landsvæðum sem hér um ræðir, að allt er þetta á forsendum orkunýtingarinnar. Það nefndarstarf sem hér á að fara fram á aðeins að taka til þeirra svæða sem koma til greina vegna orkunýtingar á sama hátt og rammaáætlunin um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem hér hefur verið rómuð og á það skilið á sinn hátt en það starf var sett af stað einungis á forsendum orkunýtingar. Þar er ekki fjallað um önnur svæði og það er svo mikið á forsendum orkunýtingar, eins og ég skal tyggja hér enn einu sinni, að þar er fjallað um einstök virkjunaráform. Það er ekki fjallað um virkjunarsvæði heldur einstök virkjunaráform og hvernig þau geti komið út í nokkrum pörtum og þar á meðal er sem sé umhverfisverndarparturinn.

Vegna þessa er ekki líklegt að þjóðarsátt með nokkrum hætti geti skapast um þennan hluta þessa frumvarps. Leið til þess hefði hins vegar verið, forseti, að marka í frumvarpinu skýran inngang að þessu tímabili þannig að næstu fjögur ár, fimm eða tíu eða hvað sem þau nú í raun og veru verða mörg væri vakað yfir náttúruverðmætum og náttúrugæðum og búið þannig um hnúta að framkvæmdir á náttúrusvæðum væru sem allra minnstar og ekki nema þær sem þegar er búið að hrinda af stað í reynd eða undirbúa með þeim hætti að ekki er ástæða til að stöðva þær, og búa þá svo um hnútana enn fremur að aðrar framkvæmdir verði ekki settar af stað nema með samþykki Alþingis. Af hverju samþykki Alþingis frekar en samþykki iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra eða réttara sagt Orkustofnunar í samráði við umhverfisráðherra og undir yfirstjórn iðnaðarráðherra eðli málsins samkvæmt? Jú, ekki einungis vegna þess að framkvæmdarvaldið hefur sýnt þá hneigð að vera ákaflega orkusinnað og finnast mjög lítið til um hagsmuni náttúrunnar á undanförnum árum sem hér væri gott og snjallt að rekja í lengra máli. Það má minna t.d. á samskipti hæstv. umhverfisráðherra sem nú gegnir öðru miklu embætti úr sama flokki og sá hæstv. iðnaðarráðherra sem hér situr, samskipti hennar við Skipulagsstofnun vegna Kárahnjúkavirkjunar sem dæmi um það að þegar til stykkisins kemur er það náttúran sem víkur og framkvæmdirnar sem vinna.

Það er hins vegar ekki gert og það verður að benda hæstv. iðnaðarráðherra á það vegna hinnar glaðbeittu ræðu sem hann hélt hérna áðan að við það eru gerðir sterkir fyrirvarar í bókunum tveggja af þeim sem sátu í þeirri nefnd sem þetta frumvarp samdi eða fyrstu gerð þess. Þeir fyrirvarar koma annars vegar frá fulltrúa Samfylkingarinnar og hins vegar fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þannig að þetta vissu menn fyrir. Það er ekki að koma upp á núna að þetta sé rætt eins og ýjað hefur verið að í umræðunni í dag.

Ástæðan fyrir því að hér er efast um að það skapist sú framvirka þjóðarsátt eða sú ímyndaða þjóðarsátt sem hefur verið kynnt á blaðamannafundum er auðvitað m.a. sú að menn spyrja sig: Hvað verður eftir þegar þessi inngangstími, umþóttunartími eða hvað við eigum að kalla hann er liðinn, þessi skömmu fjögur ár sem hæstv. iðnaðarráðherra talaði hér um? Hvað verður eftir þegar sú virkjanastarfsemi sem nú er í gangi hefur aukist nánast um 100%, eða 150% ef þau áform ganga eftir sem nú er mætt með hlýju og velvild af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnar þeirrar sem hann situr í?

Það er rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að það er líklegt að verndarsjónarmiðum aukist fylgi á næstu árum. Það er engin furða vegna þess að þær framkvæmdir sem um er að ræða beinast að náttúruverðmætum, dýrmætum náttúruverðmætum sem eru af skornum skammti á Íslandi. Það ætti rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma ein sér að geta sýnt þeim ráðherrum sem hér eru staddir eða ættu að vera staddir.

Þriðja — eða fjórða — ástæðan fyrir því að mönnum bregður nokkuð þegar talað er um þjóðarsátt í þessu máli á þessum skamma tíma fyrir kosningar eru þau áform sem fram koma í hinni stóriðjustefnulausu ríkisstjórn þegar litið er á afstöðu hennar í loftslagsmálum. Hvernig eru þau? Jú, þau eru þannig að ríkisstjórnin hefur í raun lýst því yfir núna með fréttatilkynningu sinni um frumvarp umhverfisráðherra sem kynnt var 6. febrúar — hefur að vísu ekki borist þinginu eða verið birt af einhverjum ástæðum, sem er sérkapítuli í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar, þó að nú sé kominn 13. febrúar — að íslenska ákvæðið skipti í raun og veru engu máli, hið fræga íslenska ákvæði í samræmi við Kyoto-samninginn. Menn muni halda sig formlega innan þessa ákvæðis en ef þau álver sem hér verða reist eða stækkuð í framtíðinni þurfi á meiri orku að halda geti þau útvegað hana sjálf með því að kaupa hana að utan og setja hana þá væntanlega í almenna kvótann þannig að þetta verði að lokum þannig að menn haldi sig formlega innan ákvæðisins og Íslendingar sjálfir þurfi ekki með beinum hætti að kaupa þennan kvóta fyrir álverin — en álverin eiga að rísa. Hvað loftslagið varðar segir ríkisstjórnin: Loftslagsmálin eiga ekki að stoppa álversuppbygginguna hér á næstu árum. Þetta jafngildir yfirlýsingu um það að öll þessi áform geti af hálfu ríkisstjórnarinnar farið í gegn. Það þarf að framleiða orku fyrir öll þessi álver. Það jafngildir því að hér þarf að framkvæma í virkjunarmálum og það jafngildir því að allar þær virkjunarhugmyndir sem núna eru uppi á borðinu og fleiri til verða að veruleika ef ríkisstjórnin sem nú situr hefur sitt fram, bæði þau virkjunaráform sem nú er einhvers konar leyfi fyrir, þau virkjunaráform sem eru í gangi með rannsóknarleyfi og fyrirheit um nýtingarleyfi og líka töluverður hluti af þeim virkjunaráformum sem hér eru kölluð virkjanir a og virkjanir b samkvæmt rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Ég hef spurt og fengið lítil svör um það hvernig hátti til með þau áform. Að vísu er hróss vert að hæstv. iðnaðarráðherra hefur nefnt, að ég held, að fjögur virkjunaráform í b-hlutanum komi ekki til greina, ég skil það svo að þau komi ekki til greina vegna þeirra athugasemda sem gerðar eru um þau áform í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en í raun og veru standa meira og minna allar hinar virkjanirnar eftir í því dæmi. Það er athyglisvert að hæstv. umhverfisráðherra, sem nú er komin í salinn, brást þannig við fyrirspurn minni áðan þegar ég spurði um afstöðu umhverfisráðherrans til þess að Alþingi fengi að ákveða sjálft um þessar virkjanir samkvæmt atvikum hverju sinni að svar hennar var það að sitja á sínum stóli og koma ekki í það andsvar sem var fullkomlega rökrétt, fullkomlega eðlilegt, fullkomlega stælalaust. En þá bara settist hæstv. umhverfisráðherra og horfði út í loftið. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur heldur ekki svarað þessum spurningum og ég á ekki von á að það hafi nokkuð upp á sig að spyrja hann þeirra. Mér sýnist það ekki af svörum hans við fyrirspurnum annarra um svipuð efni.

Það er ekki ástæða til trúnaðar þegar litið er yfir þessa sögu, þegar umhverfisráðherra segir um stóriðju að hún sé ekki vandamál í kringum loftslagið heldur hluti af lausninni — það er haft eftir umhverfisráðherra, hluti af lausninni — sem væntanlega þýðir að umhverfisráðherra býður Ísland fram til lausnar á hinum hnattræna loftslagsvanda með því að fá hingað meiri og meiri stóriðju. Ég ætla ekki í þessari ræðu og undir þessum dagskrárlið um þetta frumvarp að leggja neitt fram í þau orðaskipti og þær umræður sem hér urðu áðan um það að hve miklu leyti þetta væri skynsamlegt hjá ráðherranum, að hve miklu leyti það væri okkar að leggja fram einhvers konar fórn í þágu vandans í heiminum. Ég tel að heimurinn óski ekki eftir slíkri fórn af okkar hálfu, ef ég má þó segja það. Ég hef ekki orðið var við neina ósk af hálfu heimsbyggðarinnar um að við eyðileggjum náttúru okkar, skemmum hana og spillum — sem talin er einstæð af hálfu allra sem hana þekkja — til að leysa ofurlítið af þeim gríðarlegu vandamálum sem hér stafa af loftslagi. En umhverfisráðherra sem sé gerir alveg eins og iðnaðarráðherrann, telur með sínum hætti að við eigum að taka stóriðju út fyrir sviga í þessu og það þýðir auðvitað að umhverfisráðherra hlýtur að vera að boða hérna fleiri virkjanir.

Það skortir líka alla stefnu frá umhverfisráðherranum í loftslagsmálum að öðru leyti. Það er rétt að bæta því við af því að ráðherrann er að fara að flytja hérna frumvarp um meginreglur umhverfisréttar á eftir. Það er rétt að hafa það í nesti að stundum er ætlast til þess að menn standi við, eða a.m.k. skýri, þau orð sem þeir bera fram til samþykktar fyrir aðra.

Þetta vildi ég segja hér, þótt þessi ræða hefði mátt vera skipulegri, til að benda mönnum á að þetta frumvarp fer í tvær áttir, einkum tvær áttir. Nú sleppi ég þeim kafla sem lýtur að vali fyrirtækja og þeim kafla þess sem lýtur að auðlindagjaldi og gjaldtöku sem við höfum lítið rætt hér. Af því sést kannski ekki mikið í frumvarpinu og er e.t.v. aðallega í lúðrablæstri hæstv. iðnaðarráðherra til að bæta fyrir fyrri syndir síns flokks í þessu efni.

Frumvarpið fer í tvær áttir. Annars vegar er um að ræða lítið skref, vonandi í rétta átt, en það er sú framtíðarsýn sem hér er dregin upp með þeim fyrirvörum sem ég hef við hana gert, að enginn veit til hvers þetta leiðir í raun og veru og að þetta starf fer fram fyrst og fremst á forsendum orkunýtingarinnar. Hitt skrefið er skref aftur á bak, er í raun og veru skref aftur á bak næstu fjögur til tíu ár vegna þess að í frumvarpinu felst staðfesting á þeim virkjunaráformum sem nú eru uppi og í því felst það að Orkustofnun á að fá að leyfa — það getur vel verið að hæstv. umhverfisráðherra verði spurður ef hann er úr Framsóknarflokknum — ótal margar aðrar virkjanir án þess að nokkuð sé sýnt um það hverju það leyfi er háð, virkjanir sem nú eru merktar að gögnum til með b-um og c-um í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þess vegna getur þetta frumvarp eitt og sér ekki orðið til nokkurs konar þjóðarsáttar eða til nokkurs konar vinskapar á þessu sviði nema menn vendi kvæði sínu í kross, skýri annaðhvort núna í þessari umræðu eða meðan nefndarstarfið fer fram eða í næstu umræðum þær forsendur sem framtíðarstarfið byggist eða á að byggjast á og breyti um línu hvað varðar næstu verkefni. Ég er ekki að tala um hér að það sé eitthvert stopp/stopp, ég er ósköp einfaldlega að fara fram á það sem við höfum lagt til í Samfylkingunni og er ósköp einfalt, að ný verkefni af þessum toga séu háð samþykki Alþingis, að Alþingi samþykki eða hafni þeim leyfisbeiðnum eða -veitingum sem koma inn á þeim tíma sem líður þangað til almennileg verndar- og nýtingaráætlun verður til, hvort sem hún fer fram undir merkjum þessa frumvarps eða þingmáls okkar samfylkingarmanna um rammaáætlun um náttúruvernd.