133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[20:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil bæta við fáeinum orðum um þetta mál. Í dag var spurt hvort málið þvældist fyrir. Ég hafði hugsað mér að svara þeirri spurningu neitandi. Nefndin sem samdi frumvarpið og undirbjó það hafði það fyrir augum að þetta gæti orðið hluti af framtíðarfyrirkomulagi hvað þessi málefni varðar. Ég tel reyndar að ef menn horfa á málið sem slíkt þá eigi það ekki að þvælast fyrir með neinum hætti. Við umræðuna í dag hef ég hins vegar svolítið farið að efast um að ekki geti komið upp slík afstaða til málsins, einfaldlega vegna þess að mér hefur fundist hæstv. iðnaðarráðherra tala þannig, að hann tengi það stefnunni sem ríkisstjórnin rekur í stóriðjumálum.

Ef afstaðan til málsins er sú að stefnan verði óbreytt og til viðbótar komi það sem verið hefur í fréttum af stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, ef svo má að orði komast, þá verð ég að segja að mér líst ekki vel á þetta. Séu þær fréttir réttar er stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst henni og fjallað hefur verið um í fréttum, fólgin í því að algjörlega frjáls aðgangur verði að því að framleiða ál, t.d. til stóriðju á Íslandi, ef menn fá keypt til þess rafmagn og uppfylla þau skilyrði sem gert er ráð fyrir með almennum reglum og lögum. Ríkisstjórnin sem slík virðist ekki hafa neina stefnu um hvar eða hvenær slíkar stórvirkjanir og álver verða reist í framtíðinni.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur ítrekað komið upp í umræðunni í dag og staðfest að þetta sé hin raunverulega stefna. Ef hann lítur á hana sem hluta af málinu sem við ræðum um þá verð ég að segja að mér líst ekki vel á það.

Ég færði til bókar um leið og nefndin skilaði af sér afstöðu mína og ég taldi skýrt að gera þyrfti aðrar ráðstafanir samhliða því að samþykkja þetta frumvarp á Alþingi. Þær ráðstafanir eru fólgnar í að taka til Alþingis ábyrgðina á að ákveða það hvar, hvort og hvenær verður ráðist í stórvirkjanir á Íslandi og sjá til þess að ekki verði hleypt af stað verkefnum nema að Alþingi beri ábyrgð á því.

Til að stefnan geti orðið heildstæð hvað þessi mál varðar þá verða menn að taka á þessum vanda. Þetta er vandinn sem brennur á fólki í landinu núna og það að gera veg hinum megin við fjallið er bara ekki nóg. Hæstv. iðnaðarráðherra verður að gera betur. Ég hef skilið hæstv. iðnaðarráðherra þannig að hann einlæglega vilji að þessi farvegur verði í framtíðinni til þjóðarsáttar. En það fer enginn eftir þeim farvegi fyrr en hann er kominn yfir þetta fjall. Ef hæstv. iðnaðarráðherra telur að fólkið í landinu vilji taka þessa stefnu þá verð ég að efast um það sem ég hef þó haldið fram að þessu, að Framsóknarflokkurinn rétti nokkurn skapaðan hlut úr kútnum fram að kosningum.

Mig langar til að ræða um nokkur atriði í viðbót en vildi þó klára að tala um það sem hæstv. iðnaðarráðherra talaði um, þ.e. víðtæka þjóðarsátt um nýtingu auðlinda. Hún verður ekki til nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem ég hef lýst. Ég bið hæstv. iðnaðarráðherra að velta þessum málum vel fyrir sér áður en áfram er haldið. Ég held að þetta séu það stór mál. Mér finnst niðurstaða nefndarinnar skipta gríðarlega miklu máli fyrir meðferð auðlinda, ekki bara vegna stórra virkjana og uppbyggingu stóriðju á næstunni heldur líka fyrir meðferð auðlinda í framtíðinni.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji jafnvel stofna einhvers konar auðlindasjóð um þá fjármuni sem koma inn þegar farið verði að beita þeim reglum sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég er honum sammála um það. Að það þarf auðvitað að gera það. Það er m.a. verkefni sem menn hafa ekki unnið að varðandi þjóðlendur, þ.e. hvernig eigi að koma fyrir fjármunum vegna nýtingar þjóðlendna. Síðan koma til hin stóru mál hvað varðar nýtingu þeirra orkulinda og þjóðlendna sem ríkið byggir á.

Auðvitað kemur nýting sjávarauðlindanna líka inn í það. Mín skoðun er sú að það sem þessi nefnd var að vinna að og leit á sem hluta af framtíðarheildarstefnumörkun ættu menn að ræða um að útfæra á allar aðrar auðlindir sem ríkið ræður yfir. Þá er ég að tala um auðlindir á og undir hafsbotni. Auðlindir sjávarins. Um þær þurfa að gilda sambærilegar reglur. Það er mjög eðlilegt að líta á það sem eitt verkefni sem vinna þarf að. Þetta gæti verið fyrsta skrefið til þess. En það verður varla ef menn tengja þetta stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar núna og spilla þannig framhaldi málsins.

Hæstv. umhverfisráðherra lýsti því yfir að fram undan væri að lögfesta rammaáætlunina um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ég er algjörlega sammála henni um það og tel að Alþingi þurfi þess vegna að fjalla um rammaáætlunina í bæði iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd þingsins. Þann hluta rammaáætlunarinnar sem menn ætla að miða við í þessi máli.

Það er ekki hægt að staðfesta bara tillögur nefndarinnar í því heldur hlýtur að hvíla sú skylda á Alþingi að fara í þennan hluta rammaáætlunarinnar og skoða einstök virkjunaráform. Nefndin leggur í þessu frumvarpi til að gerðar séu faglegar kröfur um rannsóknir og það liggi fyrir skoðun á hverju máli fyrir sig með eðlilegum hætti. Hluti af verkefnum í a- og b-hluta rammaáætlunar eru með ófullnægjandi rannsóknir á bak við sig. Menn hljóta að þurfa að skoða hvort þeir virkjunarkostir eigi að teljast með. Menn hljóta líka að þurfa að skoða hvort breyting hafi orðið á afstöðu manna til einstakra verkefna og fara yfir það með fagfólki sem hefur fengist við þessi mál.

Þetta er verkefni sem nefndirnar þurfa að vinna að og því er miður að þetta mál skuli vera svo seint á ferðinni. Það er sannarlega ekki langur tími fram undan að þinglokum til að ljúka umfjöllun um það ef það tekst þá, eftir brösuga byrjun á Alþingi.

Í frumvarpinu er m.a. fjallað um eignarnám vegna virkjunarframkvæmda og breytingu á reglum hvað varðar land í einkaeigu. Það er fallið frá því fyrirkomulagi, miðað við þetta frumvarp, að það sé alfarið á vegum hins opinbera að ákveða hvernig farið sé með virkjunarleyfi og ráðstöfun þeirra í löndum í einkaeigu. Fallist er á að það sé í raun ákvörðunarvald landeigandans hverjum hann felur að rannsaka þessa auðlind þótt hann þurfi að fara eftir þeim reglum sem um önnur lönd gilda og líka falla undir framtíðarskipan hvað varðar að raða þessum löndum í nýtingu eða verndun.

Allir sem eiga lönd, hvort sem það er ríkið, hvort sem það er þjóðlenda, eða einstaklingar, þurfa að lúta sömu reglum hvað þetta varðar. Þetta kann að þýða að í einhverjum tilfellum þyki einstaklingum sem eiga lönd á sig hallað og þeir telji að með því að viðkomandi lönd séu vernduð þá eigi þeir einhverjar kröfur á ríkið. Menn verða auðvitað að svara því. Þetta er samt eðlileg niðurstaða.

En þetta hlýtur að hafa í för með sér, ef menn ætla sér að fara í eignarnám vegna virkjunarframkvæmda, að það geti ekki gengið fram nema almannahagsmunir séu þar á bak við. Það er staða sem ekki hefur komið upp varðandi þessi mál á undanförnum árum. Það hefur þótt sjálfsagt að fara í eignarnám vegna Landsvirkjunar ef hún hefur þurft á því að halda en í framtíðinni verður það ekki svo.

Ég get ekki ímyndað mér að almannahagsmunir Íslendinga séu taldir felast í að t.d. Landsvirkjun fái að virkja einhvers staðar vegna álversframkvæmda. Ég held að menn þurfi að horfa á málin öðruvísi í framtíðinni.

Mig langar að ræða aðeins meira um framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar og loftslagsmálin, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin virðist telja það sjálfsagt mál. Meira að segja hæstv. umhverfisráðherra hefur lýst því yfir að það að framleiða ál á Íslandi sé hluti af lausninni en ekki vandanum. Við eigum nú í alþjóðlegum samskiptum um þessi mál og Íslendingar fengu undanþáguákvæði og eru sem óðast að búa sig undir að fylla gjörsamlega upp í það. Ef Hafnfirðingar samþykkja stækkunina í Straumsvík þá er búið að fylla í íslenska ákvæðið verði það óbreytt eftir árið 2012. Ég held að ekki þurfi að þræta um það lengur. Þannig standa málin.

Þetta hefur líklega eitthvað ýtt við ríkisstjórninni. Það er líklega þess vegna sem hún tók upp loftslagsstefnuna, að það væri lágmarkið að vísa því sem út af stæði á fyrirtækið svo ekki þyrfti að skaffa þeim loftslagsheimildir, kaupa heimildir úti í heimi fyrir losunina. Vegna þess að svoleiðis eru reglurnar núna og hafa verið. Á undanförnum missirum hafa reglurnar verið þannig. Ég hef kallað eftir því að menn taki á þeim. Mér skilst að það eigi að taka á þeim núna. Það er ekki búið að dreifa neinu slíku þingmáli og ég hef ekki séð það. Látum það vera en lítum svo á að við ætlum þá leið, að fara til samninga við aðrar þjóðir um loftslagsvandamálin með því að Íslendingar bjóðist til þess að halda áfram að fjölga álverum á Íslandi vegna þess að það sé hluti af lausninni en ekki vandanum. Halda menn virkilega að það verði ekki fleiri með lausnina á vandanum? Halda menn að þeir sem framleiða ál með gasi hafi ekki sömu rök og Íslendingar, minni mengun en vegna kolabrennslunnar? Ég er hræddur um að æðimargir telji sig geta tekið þátt í að leysa vandann eigi þau rök að duga.

Svo vaknar spurningin: Getum við gert landi okkar slíkt? Erum við Íslendingar tilbúnir að taka þessa byrði á okkur? Að fórna stórum landsvæðum og stöðum í stóriðju vegna þess að við ætlum að leysa loftslagsvandann? Ég hef ekki verið á þeirri skoðun.

Ég studdi Kárahnjúkavirkjun og þori alveg að segja það upphátt. Ég taldi ástæðu til að fara í þær framkvæmdir. Ég taldi að ekki lægju fyrir þannig upplýsingar um það mál að þar yrði verri virkjun en þær sem við höfum verið í. Ég hafði þau rök í málinu að með virkjuninni við Kárahnjúka væri sambærilegt afl við að virkja á öllu Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og með miklu minni umhverfisáhrifum en þar eru.

Ég bið menn bara að horfa á kort og velta því fyrir sér. Ég segi það fyrir mig að ég vil frekar bera ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun en virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu sem raða sér bráðum frá hafi til allra fjalla. Þetta hefur ekki vaxið mönnum í augum fyrr en núna þegar á að virkja á sléttunum fyrir neðan fjallið. Þetta eru m.a. rök mín hvað þetta varðar. Ég tel hins vegar hæpið að Íslendingar eigi að breyta fleiri landsvæðum í stóriðnaðarsvæði. Mér hefur fundist betra að menn stækkuðu þau álver sem fyrir hendi eru en að þeir fjölguðu svæðum þar sem ál er framleitt.

Ásýnd Íslands verður því verri sem víðar verður ráðist í slíkar framkvæmdir. Ég held að menn þurfi að huga að þessu. Auðvitað spyrja menn: Bíddu, viltu þá ekki að menn stækki í Hafnarfirði? Ef menn ætla að halda áfram á þeirri braut finnst mér það út frá þessum rökum allt í lagi. En það er auðvitað Hafnfirðinga að ákveða hvort menn vilji stækka þar. Það átti hins vegar að vera stjórnvalda að ákveða fyrr hvort fara ætti í slíkar framkvæmdir. Það á ekki að vísa því til sveitarfélaga í landinu hvort þær vilja fara í svona framkvæmdir heldur einungis því hvort þeir vilji hafa hana hjá sér. Þar eiga þeir að hafa skipulagsvaldið. Menn krefjast þess af Hafnfirðingum að þeir taki afstöðu til mála út frá einhverjum loftslagsrökum, vitandi að ef þeir segja nei þá fer næsta álver til Helguvíkur. Hvernig á að rökræða við fólk í Hafnarfirði um þessi mál? Ég bara spyr.

Ef ríkisstjórnin gæti hins vegar sagt að hverju væri stefnt þá væri það gott. Þar virðist bíllinn fullkomlega bremsulaus. Hann á bara að halda áfram á meðan brekkan dugar. En meðan svo er þá er eiginlega ekki nokkur leið að rökræða málið. Mér finnst að hæstv. iðnaðarráðherra þurfi að líta í eigin barm. Framtíðin sem Íslendingar sjá fyrir sér er sú sem ég hef lýst, að allir sem vilja koma hingað, setja upp álver og uppfylla almenn skilyrði um umhverfismat og annað slíkt, og geta fengið einhvers staðar keypt rafmagn, fái leyfi til að gera þá hluti. Aðra stefnu hefur ríkisstjórnin ekki.

Samfylkingin hefur lýst því yfir að hún vilji að menn doki við. Er það óskapleg fórn að doka við, hugsa svolítið sinn gang og fara yfir þessi mál á meðan sá tími líður sem um er rætt í þessu frumvarpi? Meðan menn fara yfir það hvernig framtíðin á að vera í nýtingu orkulinda og verndun náttúru? Við höfum alveg tíma til þess. Við erum ekki að tapa neinu. Ég tel að hlusta eigi á það sem fólkið í landinu segir. Mér finnst að ríkisstjórnin eigi að skoða hug sinn í málinu.