133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[20:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að það sé allsendis út í hött hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að halda því fram að þetta frumvarp feli í sér þjóðarsátt. Það er hugsanlegt að í því sé að finna meginlínur sem við ákveðnar aðstæður gætu leitt til sáttar um það hvernig fara á með þessi mál í framtíðinni. En hann hefur enga innstæðu fyrir því að koma hingað og halda því fram að hann sé með þessu frumvarpi að leysa þá miklu deilu sem hefur staðið um umhverfisvernd og stóriðju, deilu sem hefur rifið samfélagið á hol núna síðustu missiri. Það skortir algjörlega að hæstv. ráðherra rétti fram raunverulega sáttahönd og segi að samhliða þessu frumvarpi og þeim tillögum sem þar koma fram um meðferð mála í framtíðinni verði gert hlé á stóriðju. Þangað til hann gerir það er ekki hægt að segja að nokkur hönd sé til þess að taka í. Þetta vil ég nú segja algjörlega skýrt.

Ég er þeirrar skoðunar, svo að ég tali nú bara hreint út úr mínum poka, herra forseti, að Framsóknarflokkurinn sé hér með erfiðismunum að reyna að bæta fyrir syndir fortíðarinnar. Hann er að reyna að friðþægja fyrir þann stóriðjuofsa sem flokkurinn hefur sýnt. Því miður hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ekki verið með mýkstu eða mildustu útgáfuna af því sem ég kalla stóriðjuofsa Framsóknarflokksins. Mér er það minnisstætt að þegar hæstv. ráðherra tók við embætti í sumar gaf hann út yfirlýsingar sem nánast gengu samtímis í tvær þveröfugar áttir, annars vegar að nú ætti að láta af stóriðjustefnunni en hins vegar virtist hann gefa fullkomin veiðileyfi á þær orkulindir sem voru í landinu. Þannig talaði hann á þeim tíma.

Þetta er að vísu framför, það sem fram kemur í þessu frumvarpi, og mér finnst sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi svolítið séð að sér. Það breytir ekki hinu, að í reynd er hann að segja að með þessu frumvarpi séu menn að taka ákvörðun um það hvað eigi að gera í framtíðinni eftir árið 2012 — menn hafa kallað það hér framvirka þjóðarsátt — en á hinn vænginn er hann að segja alveg skýrt að það sé í lagi af ríkisstjórnarinnar hálfu og af hálfu Framsóknarflokksins að menn ráðist í þær stóriðjur sem hann segir að lögmætar ákvarðanir hafi þegar verið teknar um. Ef hæstv. ráðherra vill reyna að ná einhverri sátt hefði hann á þessari stundu beitt sér fyrir því að gerður yrði stóriðjufrestur í fimm ár.

Ég vek sérstaka eftirtekt hæstv. forseta, sem er greindur þingmaður, á þeirri staðreynd að skammur tími er til kosninga. Þetta er það mál sem sennilega verður harðast tekist á um í kosningunum. Hvað er þá að því að þjóðin fái að kjósa um það? Hvað er að því að þjóðin fái að kjósa um það með hvaða hætti á að fara með þessi mál? Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill taka þennan möguleika frá þjóðinni með því að binda hendur hennar og kjörinna fulltrúa hennar á Alþingi með því að koma í gegn þessum lögum sem fela það í reynd í sér, eins og ég túlka mál hæstv. ráðherra, að það sé fullkomlega eðlilegt að menn haldi áfram á þessari braut og ráðist í þau orkuver sem þarf til þess að koma upp a.m.k. þeim tveimur stóriðjuverum sem nánast eru á borðinu.

Svo kemur hæstv. ráðherra, og það eru margar þverstæður í málflutningi hans, og segir að það sé hvort eð er ekki búið að slá neitt í gadda, allir endar séu enn óhnýttir og þess vegna sé í sjálfu sér ekki hægt að halda því fram að hér eigi að fara að ráðast í byggingu tveggja eða þriggja stóriðjuvera. En ef það er staðreynd, ef málin eru eins og hann lýsir þeim — ég leyfi mér reyndar að draga það í efa — hvaða nauður rekur þá hæstv. ráðherra til að koma þessu í gegn núna? Ef það er ekkert sem rekur á eftir því, hvers vegna þarf að gera það núna nánast korteri fyrir kosningar? Mér finnst röksemdir af hálfu ráðherrans fyrir því vera mjög veikar. Það er ekkert að því að hæstv. ráðherra leggi hér fram frumvarp og sýni vilja ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar eins og hún vill sjá þessi mál þróast ef hún heldur áfram eftir kosningar. En það er ekki í anda lýðræðis og það er ekki lýðræðislegt, eins og hæstv. ráðherra sagði í sjónvarpinu fyrr í kvöld, að taka þessa ákvörðun núna. Það er heldur ekki í þágu almannahagsmuna. Almannahagsmunir krefjast þess að af hálfu stjórnvalda sé reynt að ná friði og sátt í samfélaginu. Ekkert mál hefur reynst stjórnmálunum jafnerfitt á síðasta hálfa áratugnum og þetta tiltekna mál. Eitt annað mál hefur komist í hálfkvisti við það, þ.e. fjölmiðlamálið, en ekkert hefur stungið þjóðina eins inn að beini og deilurnar um þetta mál. Ég veit það sjálfur sem þátttakandi í þeim.

Ég segi eins og sá ræðumaður sem talaði hér á undan mér: Ég greiddi atkvæði með Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma, ekki grátandi á þeim tíma, en þá var það sagt af okkar hálfu að þetta yrði síðasta framkvæmdin af þessum toga sem menn réðust í um langa hríð. Við lögðum í þeim anda, Samfylkingin, fram tillögur um það áður en þing hóf störf í haust að nú yrði gert fimm ára hlé á stóriðjuframkvæmdum. Ég sé mér til mikillar ánægju að hér á þessum degi í umræðunum hafa fulltrúar tveggja stjórnmálaflokka tekið undir það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði það alveg klárt og kvitt að allt annað væri að taka á því máli sem hæstv. ráðherra flytur hér ef því fylgdi skýr yfirlýsing um fimm ára stóriðjustopp. Hv. þm. Katrín Fjeldsted talaði á sömu lund hafi ég skilið mál hennar rétt hér áðan.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt ef menn eiga að samþykkja svona frumvarp að samhliða verði gefin út sú yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar að til að ná sátt í málinu meðal þjóðarinnar hætti menn við þau áform sem eru uppi um að reisa álver í Helguvík og stækka álverið í Straumsvík. Ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að það séu hvort eð er ekkert annað en hugmyndir enn þá — og það eigi eftir að ganga frá mjög mikilvægum málum áður en hægt sé að segja að það mál sé komið á stig ákvarðanatöku — þá er honum það útlátalaust, þá er það ríkisstjórninni útlátalaust.

Hæstv. ráðherra hefur líka og ríkisstjórnin öll talað um að staða hagsveiflunnar, framkvæmda og fjárfestinga í samfélaginu, sé þess eðlis að ekki sé þörf á þessu til að halda þeim hraða í hagkerfinu sem mætti telja æskilegt til að halda uppi tekjustreymi og velsæld. Hæstv. ráðherra hefur margoft sagt þetta. Ríkisstjórnin hefur sagt þetta. Hún er að þessu leytinu til sammála ýmsum helstu forustumönnum greiningardeildar bankanna sem hafa sagt það fullum fetum að breytingar á ýmsum þáttum hagkerfanna og fjárfestingarfyrirtækja séu þess eðlis að það þurfi enga stóriðju til að halda hagvexti í því horfi að til velsældar leiði í samfélaginu. Ég vísa t.d. til áramótagreinar í Viðskiptablaðinu af hálfu allra greiningardeilda bankanna. Það er ekki efnahagsleg nauður sem rekur okkur til þessa.

Hitt er svo annað að ein af þverstæðunum í máli hæstv. ráðherra og í máli hans í fjölmiðlum síðar, eftir að ræðum sleppti hér fyrir matarhlé, var að hann benti á þá staðreynd að skjótt skipuðust veður í lofti. Hann virtist ekki hafa meiri trú á efnahagsstjórninni og stöðu efnahagsmála nú um stundir en svo að hann sagði að hér gæti vel eftir einhver missiri eða ár, fyrr en nokkurn uggði, verið komin upp staða þar sem þyrfti innspýtingu af því tagi inn í hagkerfið. Það er hins vegar allt annað en það sem ríkisstjórnin hefur verið að halda fram og það er líka í ósamræmi við það sem aðrir óháðir fjármálasérfræðingar utan stjórnsýslunnar hafa verið að segja.

Mér þótti líka kenna þverstæðu í máli hæstv. ráðherra þegar hann sem gamall seðlabankastjóri, sem hefur átt þátt í skýrslum sem hafa útmálað og uppteiknað hin svokölluðu ruðningsáhrif þenslunnar sem stafar af stóriðju hvað skýrast, þegar hann sagði í máli sínu að þetta væri nauðsynlegur partur af atvinnustefnu sem m.a. ætti að leggja áherslu á sprotafyrirtæki og hátækni. Við vitum að þó að þessir hlutir séu í eðli sínu ekki andstæðir hvorum öðrum, þessir þættir atvinnulífs og hagkerfis, þá er það samt sem áður staðreynd að staða hátækni í dag er miklu verri en menn gerðu sér grein fyrir þegar þeir fóru að taka það saman núna fyrir sprotaþingið sem haldið var á dögunum. Í ljós kemur um sprotana svokölluðu að það hefur dregið úr umfangi þeirra og þeim hefur fækkað. Þeir eru að flytjast til útlanda og ástæðan er ákaflega einföld, það er vegna þess að nú er það að gerast sem lýst var að kynni að henda í skýrslum hæstv. iðnaðarráðherra þegar hann var seðlabankastjóri, þ.e. ruðningsáhrifin af þenslunni eru að kæfa þessi kímblöð atvinnugreinar framtíðarinnar.

Herra forseti. Þó að ég sé og flokkur minn að eðli til ekki mjög sjálfhælinn vil ég samt sem áður benda hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á að við í Samfylkingunni höfum nokkuð til okkar máls þegar við tölum um sprotafyrirtæki og hátækni, því að þær tillögur sem við fluttum einmitt á sprotaþingi fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar fengu jú dágóða meðferð þeirra sem þar sátu. Ég tala því af paldri nokkurrar þekkingar á þessu sviði fyrir hönd þingflokks míns.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við þær aðstæður sem núna ríkja í íslensku samfélagi eigi menn að stíga á bremsurnar. Menn eiga að taka upp þá stefnu sem hæstv. ráðherra vill forðast og kalla mætti stopp/stopp-stefnuna í staðinn fyrir start/stopp-stefnu hans, sem hann lýsti hérna áðan og vildi reyndar ekki heldur. Ég tel að í fyrsta lagi sé nauðsynlegt, vegna þess að við Íslendingar höfum einfaldlega farið ógætilega varðandi umgengni við náttúruna á síðustu árum, að við tökum okkur á í þeim efnum og gerum bragarbót. Ég held að almennur samhljómur sé að skapast fyrir þeirri stefnu sem Samfylkingin og fleiri aðilar hafa talað fyrir, að menn eigi núna að nálgast þessa deilu frá sjónarhóli náttúruverndar en ekki stóriðju.

Við vorum áður með rammaáætlanir um stóriðju og flestir flokkar, kannski ekki allir, tóku þátt í því. Síðan hefur andrúmsloftið einfaldlega breyst, viðhorfin hafa breyst og það er greinilega ríkur vilji meðal þjóðarinnar til að staldra við og nálgast þetta núna frá hinum vængnum, frá sjónarhóli náttúruverndar, ekki frá sjónarhóli virkjana og virkjunaráforma, og það er það sem við eigum að gera. Það er algjörlega nauðsynlegt áður en lengra er haldið, m.a. til að skapa sátt, að við förum yfir landið af kostgæfni og flokkum frá þau svæði sem við teljum að séu svo dýrmæt að ekki megi snerta þau til að skerða ekki þá arfleifð sem við látum af höndum renna til kynslóða framtíðarinnar. Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því að ég tel að slá eigi allri stóriðju á frest.

Önnur ástæða er líka sú að efnahagslífið er í því horfi að engin þörf er á þeirri tegund af fjárfestingarinnspýtingu inn í hagkerfið til að halda því gangandi, það er í góðum vexti. Gerðar hafa verið kerfisbreytingar á íslensku samfélagi, stjórnsýslu og efnahagslífi sem hefur leitt til þess að hér hafa komið upp allt annars konar atvinnugreinar en við gátum séð fyrir, fyrir kannski tíu, tólf árum þegar við vorum að reyna að spá í með hvaða hætti Alþingi gæti lagt ramma og grundvöll að nýjum atvinnugreinum. Menn geta deilt um sumar þær kerfisbreytingar. En það er alveg ljóst að í fyrsta lagi lagði samþykkt okkar á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu grundvöll fyrir nýja útrás og nýja auðsköpun í íslensku samfélagi. Það ásamt umdeildu kvótakerfi og líka umdeildri einkavæðingu bankanna hefur síðan gefið möguleika til að nýta þá útrásarmöguleika sem sköpuðust með Evrópska efnahagssvæðinu, ekki síst frelsi í flutningi fjármagns og vinnuafls. Þetta gerir það að verkum að við erum að nýta framleiðsluþættina í samfélaginu miklu betur en nokkurn gat órað fyrir áður.

Efnahagsástandið er þess eðlis að við höfum vel efni því að slaka á í þessu máli og reyna að ná raunverulegri sátt. Ég deili ekki með hæstv. ráðherra þeim efa sem gægðist fram í máli hans um traustleika grunnsins sem efnahagur landsins stendur á, því ekki er hægt að kalla það annað en efasemdir hjá hæstv. ráðherra þegar hann lætur í öðru orðinu skína í að hugsanlegt sé að við þurfum stóriðju til þess að taka á einhverjum efnahagsörðugleikum sem kunna að koma upp í tiltölulega náinni framtíð. Öðruvísi var ekki hægt að skilja hæstv. ráðherra nema hann vilji bæði hafa axlabönd og belti á efnahagslífinu. Ég trúi því að þegar samtök atvinnurekenda — maður, einn af okkar fyrrum samstarfsmönnum, eins og Vilhjálmur Egilsson á annan vænginn og á hinn vænginn forustumenn í Alþýðusambandi Íslands, eru sammála um að fjárfestingar íslenskra fyrirtækja í grunngerð samfélagsins ásamt fjárfestingum stjórnvalda í sömu grunngerð hafi leitt til þess ásamt ýmsum kerfisbreytingum að fyrirsjáanlegur sé hagvöxtur sem er meiri en nægur til að sjá til þess að hér verði velsæld og að ríkinu verði ekki féskylt varðandi rekstur sinn.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem eru rök fyrir því að fallast á það sem ég kalla sátt af hálfu stjórnarandstöðunnar og hefur komið fram í máli allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna í kvöld varðandi stóriðjufrest, að hæstv. ráðherra hefur allra manna best útmálað það í ræðum sínum að það er svo skammt komið að hans mati varðandi framkvæmdir þessara stóriðjuvera sem nú eru umdeildastar að það væri allt í lagi þess vegna að slá þeim eingöngu á frest. Það er ekkert sem bendir til að það verði til þess að við missum einhverja fiska af okkar öngli.

Hæstv. ráðherra lýsti því vel í máli sínu fyrr á þessum degi að nú væri ekki lengur með virkum hætti verið að leita að fjárfestum í stóriðju og orkunýtingu á Íslandi einfaldlega vegna þess að nóg framboð er af slíku og hæstv. ráðherra sagði að eftirspurnin eftir íslenskri orku væri orðin slík að ekki væri annað fyrirsjáanlegt en af völdum markaðslögmálanna mundi verð á henni ekki geta annað en hækkað.

Ég vil taka það alveg skýrt fram, af því mér fannst á máli hæstv. ráðherra að hann hefði skilið einn af þingmönnum Samfylkingarinnar þannig að við værum að mæla fyrir stóriðjufrestun til að geta hugsanlega fengið meira verð fyrir orkuna síðar, að það er ekki svo. Við erum að gera þetta fyrst og fremst af tvenns konar ástæðum. Í fyrsta lagi að skapa þá sátt sem okkur sem stjórnmálamönnum er samfélagsleg skylda að reyna að ná og hins vegar erum við í fullri einlægni að reyna að slá skjaldborg um ákveðin náttúruverðmæti. Þegar ég nefni þetta orð er sjálfsagt að rifja það upp að mál þessu skylt sem mjög hefur verið umdeilt, þ.e. Norðlingaölduveita, er bara í biðstöðu. Það mál sem við slógumst gegn og var lofað ákveðinni lausn á sem ekki stóðst af hálfu Framsóknarflokksins þá. Ekki er búið að slá það alveg út af borðinu og enn þann dag í dag er hægt í gögnum frá iðnaðarráðuneytinu, sem ekki hafa verið til baka dregin, að sjá vilja til þess að ráðast í margar nýjar stórvirkjanir, m.a. innan þeirra svæða sem eiga að falla undir Vatnajökulsþjóðgarð, sem hæstv. ráðherra er að reyna að fá þingið til að fallast á hér á þessu þingi. (Gripið fram í: Gengur vonandi ekki illa.)

Það er hugsanlegt, herra forseti, að ef hæstv. umhverfisráðherra kemur fram af meiri kurteisi við þingið og svarar t.d. þeim spurningum sem til hennar er beint af áhugamönnum, t.d. um loftslagsmál, þá gæti henni gengið betur að ná málum sínum í gegnum þingið. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig, herra forseti, eins og við vitum báðir, að það þarf alltaf tvo til að stíga vals og það er einfaldlega svo eins og reynslan sýnir — og gæti hæstv. umhverfisráðherra skoðað feril hæstv. menntamálaráðherra til að sannreyna það — að þegar menn koma fram af fruntaskap og leiðindum gagnvart þinginu er því alltaf með einhverjum hætti svarað kannski ekki alveg á sömu lund, en menn uppskera í þeim efnum eins og þeir sá. Ég af fullkominni einlægni og mildu hjarta ræð hæstv. umhverfisráðherra til að sýna þinginu meiri kurteisi en hún hefur gert t.d. í dag ef hún vill fá mál í gegn.

Herra forseti. Það er eitt mál annað sem mig langar að drepa á áður en ég lýk ræðu minni, það er eignarnám og heimild ríkisins til eignarnáms. Töluvert er á því tekið í frumvarpinu en hér hafa skapast umræður almennt um rétt ríkisins til eignarnáms á landi sem er sett undir stórvirkjanir. Ég verð að segja að ég hef aldrei skoðað það mál frá því sjónarhorni sem það hefur verið skoðað í út frá þeim virkjunum sem hafa verið til umræðu í neðri hluta Þjórsár. Þar finnst mér, herra forseti, eins og verið sé að ganga mjög alvarlega, jafnvel með mun alvarlegri hætti að eignarrétti manna á jörðum og landi en ég hafði skilið áður. Í því tilviki sem ég er að vísa til er um að ræða land — ef menn létu markaðslögmálin ráða og leyfðu þeim sem vildu kaupa og bjóða í það landsvæði, hugsanlega til að bjarga því frá virkjunum, mundi markaðslögmálið væntanlega leiða til þess að verðmætið sem jarðeigandinn á væri miklu, miklu meira. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að skoða í umræðunni án þess að það tengist beint þessu frumvarpi. Ég vildi nefna þetta vegna þess að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur sett þetta viðhorf fram og fleiri. Einn af þeim mönnum sem með nokkru stolti kallar sig hægri grænan og hugsanlega mun sitja hér á meðal okkar að kosningum loknum, Illugi Gunnarsson, hefur sett fram svipuð viðhorf. Yngri kynslóðir stjórnmálamanna eru því að nálgast þetta með nýjum hætti, sem ég fagna og ég held, af því að ég er markaðssinni eins og hæstv. forseti, að þetta sé eitt af því sem hæstv. umhverfisráðherra, ríkisstjórnin og við öll ættum í framtíðinni að skoða svolítið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti, en þetta er afstaða mín. Það er fráleit óskhyggja af hálfu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að telja að þetta frumvarp geti leitt til þjóðarsáttar í deilunni um stóriðjuna. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að hann hafi sjálfur fært rök að því að ekkert efnahagslega mikilvægt gerist ef hann tekur sáttaboði stjórnarandstöðunnar um fimm ára frestun á stóriðjuframkvæmdum. Þetta er það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu. Ef hæstv. ráðherra vill ná sátt, eins og mér hefur á stundum fundist hann tala í þá veru, er honum það í hendi með því að fara þessa leið. Ég fæ ekki séð, eins og hann hefur talað sjálfur, að það kosti neinar efnahagslegar fórnir, en hann gæti hins vegar með þeim hætti brúað þá gjá sem hefur verið að myndast millum ríkisstjórnarinnar og stórs hluta þjóðarinnar. Ég sé ekki, herra forseti, að þeim deilum sé með nokkrum hætti að slota. Sárin sem Kárahnjúkavirkjun skildi eftir sig og ég hélt að mundi gróa yfir eru ekki að gróa vegna þess að sífellt koma fram ný tilefni, alltaf sjáum við nýjar og nýjar birtingarmyndir þess sem ég kalla stóriðjuofsa. Og þegar menn tala kæruleysislega um þrenn til fern stóriðjuver, eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur gert og hæstv. forsætisráðherra, þá er ekki nema von að mönnum hlaupi kapp í kinn. Þau harkalegu viðbrögð sem við höfum verið að sjá við ýmiss konar virkjunaráformum síðustu vikur og mánuði stafa af því að ríkisstjórnin hefur talað mjög óvarlega í þessum efnum. Ríkisstjórnin les ekki samfélagið rétt en hún hefur eina skyldu umfram aðrar, það er sú skylda að halda friðinn í samfélaginu. Hún er ekki að rækja þá skyldu eða standa undir henni fyrr en hún tekur þessu kostaboði, sem mér finnst vera, um stóriðjuhlé.

Nú hefur það gerst að formaður Vinstri grænna hefur í ræðum í dag tekið undir þetta. Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur tekið undir þetta. Við í Samfylkingunni lýstum þessu strax í haust. Það kostar ríkisstjórnina ekkert að verða við því. Það er ekkert annað en friðþæging, það er vilji Framsóknarflokksins sem finnur það í hjarta sér, sér það í skoðanakönnunum að hann hefur syndgað gagnvart samvisku þjóðarinnar, sem gerir það að verkum að hann vill reyna að troða frumvarpinu í gegn sem einhvers konar þjóðarsátt. Það getur aldrei orðið.