133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[20:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra kallar það ráðstjórn sem hér hefur viðgengist á undanförnum áratugum, að ríkisstjórn Íslands hefur með virkum hætti skipt sér af því hvernig virkjunarmálum er háttað með fyrirtæki sínu Landsvirkjun sem ég hélt að væri enn þá í eigu ríkisins — meiri eigu nú en áður var og á hendi hæstv. iðnaðarráðherra — og með því að laða hingað sem flest stóriðjuver. Ég tel að þetta sé að mörgu leyti rétt hjá ráðherranum. Þetta sé ráðstjórn, sérstaklega þegar henni er beitt yfir höfuðið á íbúum landsins, á innbyggjurum hér á okkar vesölu eyju.

En það frelsi sem hæstv. iðnaðarráðherra hyggst núna beita sér fyrir, og telur að komið sé á og hafi verið komið á áður en hann kom í iðnaðarráðuneytið, hvað gengur það langt? Kemur ríkisstjórninni það ekkert við hve mikið ál er framleitt hér? Hvað það er mikill hluti af framleiðslu þjóðarbúsins? Kemur ríkisstjórninni það ekkert við framvegis og á ekki að koma það við hversu margar ár eru virkjaðar eða hvernig orkuframleiðslu er háttað? Á ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn hans eða annarra, ekki að hafa neina stefnu í þessu eða ekki að hafa álit á því, á hún ekki að hafa neitt um það að segja?

Það má minna á að fyrrverandi iðnaðarráðherra lét hafa það eftir sér hér að þegar framleiðslutalan væri komin í milljón tonn af áli á ári væri hugsanlegt að við ættum að staldra við. Hefur núverandi hæstv. iðnaðarráðherra gefið þá stefnu upp á bátinn eða hefur hann einhverja aðra tölu í huga um æskilegt hámark álframleiðslu á ári?