133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:05]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fer að ýmsu leyti með verulegar ýkjur í máli sínu. Rétt er það að stefna Samfylkingarinnar, sem hún kallar náttúruverndaráætlun, er líka lánaðar fjaðrir, m.a. úr því nefndarstarfi sem liggur til grundvallar frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Í því frumvarpi eru ekki nýjar ákvarðanir varðandi þetta fjögurra ára tímabil sem er fram undan heldur er þvert á móti vísað í fyrri lögmætar ákvarðanir og síðan eru rammar skorður settar í a- og b-flokki fyrsta áfanga rammaáætlunar, eins og oft hefur komið fram. Tilboð það sem hv. þingmaður er að veifa er óaðgengilegt vegna þess að það er hin hættulega stopp/stopp-stefna.