133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:06]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér líkar nú heldur illa við þjófsorðið sem hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra ber á okkur í Samfylkingunni. Ég get alveg trúað honum fyrir því að ég skrifaði sjálfur frá orði til orðs þær tillögur um hátækni sem lagðar voru fram á sprotaþingi og eins og hæstv. ráðherra man fengu 1., 2. og 3. verðlaun þeirra sem þar tóku þátt. Ég viðurkenni það alveg, herra forseti, að auðvitað leitaði ég fanga víða í þeim gögnum sem komu frá Samtökum iðnaðarins og lágu fyrir um það en ég minnist þess ekki að hafa leitað í smiðju til Framsóknarflokksins vegna þess að þar var ekkert um það mál að finna. Þar var bara gamla, gráa, svarta stóriðjuofsann að finna, svo einfalt var það nú.

Stefnan sem kennd er við „Fagra Ísland“, og Samfylkingin hefur lagt fram, var skrifuð löngu áður en þetta frumvarp kom fram. Eins og hæstv. ráðherra getur séð, ef hann nennir að hafa fyrir því að lesa þá þingsályktunartillögu, er hún í meginatriðum gjörólík því sem kemur fram í frumvarpinu sem hér liggur til umræðu. Það vildi ég nú segja, herra forseti, aðeins til þess að hreinsa það mannorð sem hæstv. ráðherra er að reyna að flekka hjá Samfylkingunni. Að öðru leyti er mér alveg sama um það hvað hann segir um það hvaðan það kemur. Staðreyndin er einfaldlega sú að við vitum það öll að í stjórnmálum er ákaflega erfitt að fá frískar og nýjar hugmyndir en það kemur fyrir að einstaka flokkar fá þær þó að þess kannski gæti ekki hjá Framsóknarflokknum nú um stundir.

Hitt er athyglisvert að hæstv. ráðherra svaraði engu varðandi þær spurningar sem ég bar fram. Hann sagði hins vegar: Sáttaboð er ekki ásættanlegt vegna þess að það er hættulegt. Hvað er hættulegt? spyr ég hæstv. ráðherra. Hvað er hættulegt við það að fresta stóriðjuframkvæmdum um fimm ár?