133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:11]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég sá mig tilneydda að svara orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í minn garð. Hann kann því illa sjálfur, eftir því sem hann kallar, að vera þjófkenndur. Ég kann illa við að vera sökuð um ókurteisi í þingsal. Ég tel mig ekki hafa unnið til þess í tilsvörum mínum í dag eða í nokkurri ræðu. Ég óska eftir að hv. þingmaður dragi það til baka að ég hafi sýnt ókurteisi.

En niðurstaða mín eftir umræðuna í dag er sú að stóriðjustefnan sé eingöngu til í kollinum á stjórnarandstöðunni. Það hefur margkomið fram í umræðunni í dag að ríkisstjórnin rekur ekki stóriðjustefnu. Nú spyr Össur Skarphéðinsson hæstv. iðnaðarráðherra hvað því sé til fyrirstöðu að við segjum stopp næstu fimm árin? Hæstv. iðnaðarráðherra er búinn að svara því og hvaða afleiðingar það hefur.

En mig langar að bera aðeins niður í skýrslu nefndarinnar, sem m.a. hv. þm. Jóhann Ársælsson átti sæti í en þar veltu menn fyrir sér hvernig ætti að taka á ákveðnu millibilsástandi. Í frumvarpinu segir að á Íslandi gildi atvinnufrelsi, þ.e. að einstaklingum og lögaðilum er heimilt að gera það sem ekki er bannað í lögum. Því er hægt að sjá fyrir sér að unnt sé að reisa stóriðjuver án þess að Alþingi komi að því. Það er fyrirkomulag sem stjórnarandstaðan stóð að hér á sínum tíma þegar voru gerðar breytingar á raforkulögum og öðrum lögum á því sviði. Þetta var fært frá Alþingi og leyfisveitingin til iðnaðarráðherra.

En á bls. 72 í athugasemdum með frumvarpinu segir að unnt sé að reisa stóriðjuver án þess að Alþingi komi að því. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Alþingi gæti sett sérlög sem með almennum hætti takmörkuðu heimildir til að reisa stóriðju, …“

Það verður ekki öðruvísi gert. Forræðið er ekki á höndum ríkisvaldsins í þessum málum með þeim breytingum sem gerðar voru á stjórnskipulagi raforkumála. Forræðið og stóriðjustefnan liggja þá hjá sveitarfélögunum, ekki hjá ríkisvaldinu. Fram kom hjá Jóhanni Ársælssyni í fyrri ræðu hans, eða hvort það var í andsvari fyrr í dag, að það eigi ekki að vísa þessu viðfangsefni til sveitarfélaganna. Skipulagsvaldið liggur hjá sveitarfélögunum, m.a. í Hafnarfirði þar sem tekin hefur verið ákvörðun um það af flokksbróður hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að íbúarnir fái að velja um þetta.

Annars staðar í öðrum sveitarfélögum, hvort sem það varðar Helguvík eða Húsavík, þá hafa íbúarnir í gegnum skipulagsferlið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Og ef íbúar í sveitarfélögunum eru svo andvígir því hver á sínum stað, hver reiknar með að það rísi álver, að sveitarstjórnirnar ráðist í það? Það hefur verið ákveðið að hafa atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði til að fá skorið úr því hvort það er meiri hluti fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Ekki veit ég hvað menn ætla að gera á Húsavík en varla ráðast þeir í virkjun og stóriðju í andstöðu við íbúa sveitarfélagsins.

Hv. þingmaður sagði að ekki ætti að vísa þessu til sveitarfélaga. En það kemur af sjálfu sér, þar sem skipulagsvaldið liggur þar, fyrir utan þessa sérstöku ákvörðun bæjarstjórnar í Hafnarfirði að fela meiri hluta íbúa að taka ákvörðun um það.

Þetta var ekki auðvelt viðfangsefni sem hin ágæta auðlindanefnd stóð frammi fyrir. Það kemur fram hér í athugasemdum með frumvarpinu á bls. 71 að í nefndinni hafi komið til umræðu ýmiss konar hugmyndir sem spönnuðu allt frá því að allar leyfisveitingar yrðu frystar og ekki gefin út frekari leyfi þangað til að framtíðarstefnan hefði verið lögfest (Gripið fram í.) yfir í að halda áfram útgáfu leyfa með óbreyttum hætti í samræmi við gildandi lög.

Svo koma ýmis millistig líka til skoðunar í þessu nefndarstarfi með tilliti til þess hvar lagaskil skyldu vera. Það liggur fyrir og kemur fram í athugasemdunum með frumvarpinu að þá lá fyrir nefndinni að í ágúst 2006 voru í gildi sjö rannsóknarleyfi vegna jarðhita, en tvö þeirra leyfa eru sérstaklega vegna hitaveitu. Í athugasemdum í skýrslu nefndarinnar er síðan gerð grein fyrir hver þessi rannsóknarleyfi eru.

Þar segir að nefndin telji óhjákvæmilegt, með tilliti til lagaskilyrða og réttmætra væntinga viðkomandi leyfishafa, að á þeim svæðum verði heimilt að halda áfram með rannsóknir og framkvæmdir í samræmi við gildandi lög. Framkvæmdaraðilar munu því sem fyrr þurfa að fá öll tilskilin leyfi og samþykki frá viðeigandi aðilum í ferlinu, t.d. fara í umhverfismat, fá samþykkt svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag, fá nýtingarleyfi, leyfi forsætisráðherra ef um er að ræða þjóðlendu, virkjanaleyfi, starfsleyfi fyrir virkjun, tímabundið starfsleyfi, framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi.

Það er ekki eins og þetta sé í hendi. Síðan segir auk þess í athugasemdunum að 21 umsókn um rannsóknarleyfi vegna jarðhita og vatnsafls bíði á 15 svæðum. Þar af eru 12 umsóknir vegna jarðhita og 9 umsóknir vegna vatnsafls. Í athugasemdunum er síðan gerð grein fyrir því hvaða svæði þetta eru.

Síðan segir, með leyfi forseta, orðrétt:

„Nefndin taldi mikilvægt að úrlausn hennar um þetta atriði væri almenn og byggð á hlutlægum og faglegum viðmiðum, en fæli ekki í sér sérstaka og klæðskerasaumaða lausn, sniðna að einstökum virkjunarkostum og/eða einstökum orkufyrirtækjum. Að öllu þessu gættu leggur nefndin til að heimilt verði að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við á þeim forsendum að umhverfisverðmæti þeirra sé talið mikilvægt. Með þessu móti er brugðist við þeim lagalega áskilnaði sem vænta má að gerður verði og vikið er að hér að framan. Valið er almennt viðmið sem ekki er hægt að segja að bitni sérstaklega á einum aðila umfram aðra. Með þessari tillögu er mögulegri orkunýtingu á næstu árum sniðinn afar þröngur stakkur. Það er því óhjákvæmilegt að unnt verði að bregðast við ófyrirséðum atvikum.“

Ég vil árétta það að m.a. að þessum orðum í þessari skýrslu stendur hv. þm. Jóhann Ársælsson og að þeim sjónarmiðum sem þarna eru reifuð. Áfram segir í athugasemdunum, með leyfi forseta:

„Því er lagt til að með samþykki Alþingis verði hægt að gefa út frekari leyfi til rannsókna og nýtingar á svæðum sem ekki tilheyra fyrirvaralausum kostum í umhverfisflokkum a og b í fyrsta áfanga rammaáætlunar en þó ekki fyrr en að loknu sambærilegum rannsóknum og mati sem niðurstöður rammaáætlunar byggjast á.

Um skilyrði fyrir veitingu leyfa til rannsókna og/eða nýtingar sem sótt hefur verið um fyrir gildistöku lagabreytingar þessarar en ekki hafa verið afgreidd á því tímamarki skal farið í samræmi við lög nr. 57/1998 með þeim breytingum sem leiðir af tillögum nefndarinnar.

Það eru óhjákvæmileg tengsl milli þessa álitaefnis og þeirrar umræðu og áforma sem nú eru uppi um stóriðju á næstu árum. Skiptar skoðanir voru um það innan nefndarinnar hvort löggjöf um auðlindir og auðlindanýtingu væri vettvangur til að stýra og/eða hafa áhrif á þau áform eða hvort slíkt ætti að gera á vettvangi annarrar löggjafar, samanber áform um löggjöf um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda sem og þá staðreynd að í fyrri tilvikum hafa einstök stóriðjuáform ávallt kallað á sérstaka löggjöf þar að lútandi. Í slíkri löggjöf hefur verið kveðið á um viðamiklar undanþágur frá lögum, t.d. lögum um einkahlutafélög, lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, lögum um brunatryggingar, lögum um viðlagatryggingu, lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi og lögum um vörugjald. Einnig hafa verið sett viðamikil sérákvæði um skatta og sérreglur um reikningsskil. Taki ríkið á sig fjárhagslegar skuldbindingar í tengslum við slíka stóriðju verður það heldur ekki gert nema með lagasetningu, samanber áskilnað 40. og 41. gr. stjórnarskrár.“

Þá kem ég að því, herra forseti, sem svarar kannski þeirri spurningu sem beint var að hæstv. iðnaðarráðherra og ég nefndi í upphafi máls míns, um hvort hægt væri að setja stóriðjustopp fyrirvaralaust með ákvörðun ráðherra. Í athugasemdunum segir áfram, með leyfi forseta:

„Á Íslandi gildir hins vegar athafnafrelsi, þ.e. einstaklingum og lögaðilum er heimilt að gera það sem ekki er bannað í lögum. Því er hægt að sjá það fyrir sér að unnt sé að reisa stóriðjuver án þess að Alþingi komi að því. Alþingi gæti sett sérlög sem með almennum hætti takmörkuðu heimildir til að reisa stóriðju, …“

Öðruvísi sé ég ekki að hægt sé að koma á stóriðjustoppi. Mér fannst vert í þessari umræðu, herra forseti, að minna hv. þm. Jóhann Ársælsson á það — en hann hefur ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar innt hæstv. iðnaðarráðherra eftir afstöðu hans til þess að stoppa allar framkvæmdir í fimm ár, þar til lokið væri vinnu við nýtinguna — að þetta er sú niðurstaða, sú umræða sem fram fór um hvað væri hægt og hvað ekki þar til heildaráætlanir, annars vegar um verndun og hins vegar um nýtingu, koma til framkvæmda.