133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:23]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. umhverfisráðherra var að tala. Henni finnst greinilega engin ástæða til að neinar hömlur séu á uppbyggingu stóriðju út í það óendanlega, það eigi bara að gilda almennar reglur um atvinnufrelsi í landinu, alveg endalaust.

Það sem ég hef sagt um þessi mál er algjörlega í samræmi við afstöðu nefndarinnar. Samfylkingin hefur flutt lagafrumvarp til að taka á þessum málum með öðrum hætti, eins og hæstv. ráðherra fór yfir að þyrfti að gera og nefndin sagði. Auðvitað þurfa menn að sýna ábyrgð. Menn verða að sýna ábyrgð varðandi slíka hluti. Það á að gera í sölum Alþingis. Ég ætla ekki að þræta um það við hæstv. ráðherra að það þurfi að gera með lagasetningu, enda væri það undarlegt. Við höfum sjálf lagt fram lagafrumvarp í þessu skyni. Ég hélt að hæstv. ráðherra hefði orðið var við það.

Það þarf samþykki Alþingis fyrir því að breyta frá þessari stefnu. En það er eins og hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins vilji ekki skilja þetta. Það getur ekki verið að þeir skilji það ekki. Það hlýtur að hafa runnið upp fyrir hæstv. ráðherrum fyrir langalöngu að með því fyrirkomulagi sem núna gildir og þeir kalla atvinnufrelsi er stóriðju á Íslandi gefið algjört frelsi til að vaxa eins lengi og hægt er að fá kílóvatt til að framleiða ál.