133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:29]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé að það var ekki vanþörf á að gefa hæstv. umhverfisráðherra litla lexíu um mannasiði í fyrri ræðum mínum í kvöld. Af svari hennar áðan var ekki hægt að ráða annað en það að hún hefði heldur ekki lagt þá á sig að hlusta á þær ræður sem menn voru að flytja hér, m.a. með spurningum til hennar. Hún spurði mig, og reyndar krafðist þess að ég bæði sig afsökunar á því að hafa sagt það. En hún spurði hvers vegna ég segði að hún hefði sýnt þá ókurteisi að svara ekki spurningum sem til hennar var beint.

Hv. þm. Mörður Árnason beindi til hennar spurningu um hvort hún teldi ekki rétt að Alþingi tæki til sín þann rétt sem er í þessu frumvarpi, sem er hér til umræðu, er hjá ráðherra og varðar ákvörðun um virkjunarframkvæmdir í flokki a og b.

Hæstv. ráðherra þrumdi undir þeirri spurningu, lykilspurningu af hálfu þeirra sem vilja fá málefnalegri umræðu við stjórnarliðið. Hún svaraði því ekki. Það er ókurteisi, herra forseti, og satt að segja rakinn dónaskapur.

Hæstv. ráðherra spurði í hverju stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar fælist. Hún felst í því, herra forseti, að tala opinskátt um að minnsta kosti þrjú stóriðjuver: á Húsavík, í Helguvík, stækkun í Straumsvík, plús tvö önnur sem hafa verið rædd fullum fetum. Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað fullum fetum um ýmsa aðra möguleika einnig. Það er stóriðjustefna. Það er stóriðjustefna að hika ekki við að ráðast í gríðarlegar framkvæmdir sem leiða til mikillar þenslu, sem leiða til ofurvaxta, til ofurverðbólgu og ryðja burtu sprotafyrirtækjum og hátækni og draga úr þrótti ferðaþjónustunnar. Það er stóriðjustefna.

Ég skil það hins vegar vel að hæstv. ráðherra viti ekki hvað í því felst. Stundum finnst mér að hún viti ekki að hún er umhverfisráðherra en ekki iðnaðarráðherra.