133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:34]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo komið í þessari umræðu að ég man varla hvað það var sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi fyrst í stuttu andsvari sínu. Hann dregur mig kannski að landi með það.

Hv. þingmaður hélt því fram að ég væri að leggja fram stefnumörkun í loftslagsmálum (ÖS: Þú segir það í útvarpinu.) þar sem stóriðjan væri ekki nefnd. Hvernig dettur hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í hug að menn leggi fram stefnumörkun í loftslagsmálum þar sem ekki væri minnst á stóriðju? En ég heyrði hv. þingmann líka halda því fram á dögunum í þætti sem (Gripið fram í.) heitir Silfur Egils að í losunarfrumvarpinu væri ekki minnst á stóriðju. Þá ætla ég að leiðrétta það hér og nota tækifærið til að segja að stóriðja er eitt aðalviðfangsefni í stefnumörkun í loftslagsmálum og eina viðfangið (Gripið fram í.) í losunarfrumvarpinu um takmörkun á losunum. (Gripið fram í.) Síðan vil ég segja það, ef hv. þingmaður hættir að grípa fram í, að ég hef aldrei sagt að við ættum (Forseti hringir.) að taka á okkur einhverjar byrðar fyrir aðra, en hv. þingmaður getur ekki mælt á móti því að (Forseti hringir.) aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa dregur úr loftslagsvandamálum heimsins.