133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:36]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hélt hér merkilega smáræðu og sagði að hún væri ekki fylgjandi hömlulausri stóriðjuuppbyggingu á Íslandi. Þetta var merkilegt vegna þess að þetta hefur aldrei heyrst áður frá hæstv. umhverfisráðherra.

Hvaða gerðir umhverfisráðherra benda til þess að hún fylgi fram þessari stefnu? Stuðningur hennar við þetta frumvarp bendir ekki til þess að hún fylgi fram þessari stefnu vegna þess að engar hömlur eru settar á vaxandi stóriðju í frumvarpinu sem enn er hér umræðuefni, og úr því að við vorum að tala um loftslagsmál er rétt að taka undir það með ráðherranum að vissulega er það einhver misskilningur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ekki sé fjallað um stóriðju í loftslagsstefnunni. Ég er hér með eina opinbera gagnið sem til lestrar og kynningar er, þ.e. frétt á heimasíðu umhverfisráðuneytisins um þetta og þar er svo sannarlega minnst á stóriðju. Það er þannig að við eigum að halda okkur innan Kyoto-bókunarákvæðisins sem oft er kennt við Ísland með formlegum hætti en fari hins vegar svo, með leyfi forseta, stendur í fréttatilkynningunni „að atvinnurekstur losi meira magn koldíoxíðs en það fær úthlutað heimildum fyrir,“ — atvinnureksturinn með einhverjum hætti — „þarf fyrirtækið sjálft að afla sér viðbótarheimilda með fjármögnun skógræktar- eða landgræðsluverkefna“ — sem eru ekki miklar heimildir — „eða öflun viðurkenndra heimilda erlendis frá. Frumvarpið kemur því ekki í veg fyrir losun frá stóriðju umfram heimildir Íslands,“ stendur hér. Svo er því bætt við að ríkisstjórnin þurfi að vísu ekki að borga þennan kostnað þannig að eina verkfærið sem hæstv. umhverfisráðherra hafði sem var það að geta búið til reglur og flutt þær á þingið sem gæti stöðvað stóriðjuna samkvæmt íslenska ákvæðinu eru ekki notaðar, heldur sagt: Komið þið, börnin mín, og í fangið á mér því að hér getið þið spúð eldi og eimyrju eins og (Forseti hringir.) ykkur sýnist.