133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

meginreglur umhverfisréttar.

566. mál
[21:43]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um meginreglur umhverfisréttar sem er 566. mál á þskj. 842. Frumvarpinu er ætlað að auðvelda framkvæmd sjálfbærrar þróunar, sjálfbærrar nýtingar umhverfis og jafnframt að stuðla að samþættingu sjónarmiða um umhverfisvernd við önnur sjónarmið. Liður í því er að leggja til að nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttarins verði lögfestar. Reglurnar sem um ræðir eru reglurnar um samþættingu, fyrirbyggjandi aðgerðir, um lausn við upptöku, varúðarreglan og loks greiðslureglan. Tvívegis áður hafa verið lögð fyrir Alþingi frumvörp sem fjalla um meginreglur umhverfisréttar, á 117. löggjafarþingi 1993–1994 en þá var lagt fram frumvarp til laga um lögfestingu nokkurra meginreglna umhverfisréttar o.fl. og á 122. löggjafarþingi 1997–1998 var lagt fram frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar. Hvorugt þeirra frumvarpa varð lögum en frumvarpið sem ég mæli fyrir hefur að geyma flestar af meginreglunum sem voru í fyrri frumvörpum en það er þó með víðtækara gildissviði og skírskotun fyrst og fremst vegna meginreglunnar um samþættingu.

Markmið frumvarpsins sem ég ætla að gera nánari grein fyrir er að stuðla að sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu umhverfis, auðvelda samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum ákvarðana sem varða umhverfið. Að öllu þessu er stefnt með hag núlifandi og komandi kynslóða að leiðarljósi. Til að vinna að þessu markmiði skal útfæra meginreglurnar nánar við setningu og framkvæmd laga og reglna sem áhrif hafa á umhverfið og beita þeim þegar undirbúnar og teknar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfi. Í þessu felst í fyrsta lagi að útfæra skal einstakar meginreglur í viðkomandi lögum og reglugerðum eins og við á hverju sinni og gera grein fyrir réttindum og skyldum einstaklinga og lögaðila svo og hlutverki stjórnvalda með tilliti til viðkomandi meginreglu. Jafnframt þurfa slíkar efnisreglur að innihalda viðmið svo ákvarðanir sem byggjast á þeim stuðli raunverulega að markmiði laganna. Þannig þurfa stjórnvöld á hverjum tíma að vera meðvituð um efni og tilgang þessara meginreglna þegar unnið er að undirbúningi lagafrumvarpa og reglugerða og láta þær endurspeglast í reglunum þannig að þær kveði skýrt á um skyldur og réttindi sem þær taka til og hafi því tilætluð áhrif.

Í öðru lagi ber að beita fyrrgreindum meginreglum þegar undirbúnar eru og teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfi. Það fer eftir efni viðkomandi meginreglna hvort mögulegt er að beita þeim þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfi, þ.e. án þess að styðjast við tiltekið laga- eða reglugerðarákvæði þar sem viðkomandi meginregla hefur verið útfærð. Hins vegar er alltaf mögulegt að styðjast við einstakar meginreglur þegar ákvæði laga og reglugerða eru skýrð.

Þá vil ég gera grein fyrir efni þeirra meginreglna sem frumvarpið mælir fyrir. Reglan um samþættingu mælir fyrir um að samþætta skuli sjónarmið um umhverfisvernd við önnur sjónarmið þegar undirbúnar og teknar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfið. Reglan um samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið er af mörgum talin kjarni sjálfbærrar þróunar og má það til sanns vegar færa. Meginreglan er ítrekuð og útfærð í mörgum nýlegum alþjóðlegum samningum sem varða umhverfisvernd. Sem dæmi má nefna að samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar ber samningsaðilum að samþætta aðgerðir sem miða að loftslagsvernd við aðra opinbera stefnumörkun og áætlanagerð. Dæmi um útfærslu meginreglunnar um samþættingu er t.d. lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, en markmið þeirra er að stuðla að því að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða við áætlanagerð. Þetta er gert á þann hátt að metin eru umhverfisáhrif tiltekinna áætlana sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg umhverfisáhrif.

Í reglunni um fyrirbyggjandi aðgerðir felst að þegar teknar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfið skal eins og mögulegt er draga úr, minnka eða koma í veg fyrir áhrifin og að umhverfi skerðist að magni eða gæðum. Markmiðið sem býr í meginreglunni er að fyrirbyggja eða koma í veg fyrir að umhverfið verði fyrir varanlegri skerðingu sem ómögulegt eða óraunhæft er að bæta úr síðar. Að baki liggur vitneskja um óæskileg umhverfisáhrif verði ekki gripið til ákveðinna fyrirbyggjandi aðgerða og að þörf sé á ákveðnum verndaraðgerðum jafnvel þótt þær hafi í för með sér einhverjar takmarkanir á eignarráðum eða athafnafrelsi einstaklinga og lögaðila. Og það má segja í stórum dráttum, herra forseti, að íslenskur umhverfisréttur byggist á meginreglunni um að gripið skuli til fyrirbyggjandi aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að umhverfið verði fyrir tjóni eða skerðingu og í því tilviki vil ég benda sérstaklega á lög nr. 44/1999, um náttúruvernd, og lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, í þessu sambandi. Reglan um lausn við upptöku segir að umhverfisvandamál skuli eins og kostur er leysa þar sem þau eiga upptök sín og forðast beri að færa þau til í umhverfinu. Meginreglan endurspeglast m.a. í kröfum sem settar eru um magn ýmissa mengandi efna sem heimilt er að sleppa í viðtaka og að nota skuli mengunarvarnabúnað í því skyni að takmarka mengun umhverfisins þar sem mengunin verður til eða á upptök sín. Varúðarreglan felur í sér að þegar hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum áhrifum á umhverfi og náttúruauðlindir skal skorti á vísindalegri fullvissu ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem geta komið í veg fyrir eða dregið úr áhrifum.

Dæmið um varúðarregluna í íslenskri löggjöf er að finna í 28. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, þar sem segir m.a. að þegar hætta er talin á að matvæli geti valdið alvarlegu heilsutjóni sé ráðherra heimilt að fyrirskipa nauðsynlegar varúðar- og varnaraðgerðir. Má segja að lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, byggi á þessari sömu varúðarreglu.

Að lokum er það greiðslureglan sem mælir fyrir um að í því skyni að tekið sé tillit til umhverfiskostnaðar skuli beita hagrænum stjórntækjum í samræmi við meginregluna um að sá sem mengar beri að jafnaði þann kostnað sem hlýst af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum vegna mengunar. Að baki reglunni býr það sjónarmið að gera mengunarvald ábyrgari og meðvitaðri um ábyrgð sína sem er öðrum þræði samfélagsleg. Samtímis hvetur þessi nálgun mengunarvald til þess að þróa betri tækni og framleiðsluaðferðir og jafnar loks samkeppnisstöðu fyrirtækja sérstaklega á alþjóðlegum markaði. Í íslenskum rétti er að finna margs konar ákvæði þar sem þeim sem mengar eða ber ábyrgð á mengun er gert að standa straum af kostnaði vegna mengunarvarna og ég ætla að láta duga, herra forseti, að nefna hérna eitt dæmi sem er raunhæft á þessum tíma og þessu ári. Það er 16. gr. laga nr. 32/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, þar sem mengunarvaldur ber hlutlæga ábyrgð á bráðamengun og skal taka ábyrgðartryggingu eða leggja fram aðra fullnægjandi tryggingu til að standa straum af kostnaði vegna bráðamengunartjóns.

Ávinningur þess að lögfesta meginreglur umhverfisréttarins er margþættur. Í fyrsta lagi verða í einum lagabálki nokkrar af mikilvægustu reglum umhverfisréttarins. Þetta auðveldar undirbúning og töku allra ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfi, þar með talið undirbúning nýrra löggjafa, reglugerða og ákvarðanatöku í einstökum tilvikum.

Í öðru lagi er leitast við að skýra meginreglurnar og gera grein fyrir helstu röksemdum sem að baki þeim búa. Jafnframt er í frumvarpinu gerð grein fyrir hvernig meginreglurnar hafa verið útfærðar og þeim beitt m.a. af dómstólum.

Í þriðja lagi verður auðveldara að vinna að sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu umhverfis og einstakra þátta þess þar sem nokkrar af meginreglunum hafa beinlínis verið þróaðar með þessi markmið í huga.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarps um meginreglur umhverfisréttarins og ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar og 2. umr.