133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

meginreglur umhverfisréttar.

566. mál
[21:52]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að lögfesta eigi í landinu þessar reglur og ætla ekki að fara í umræðu um þær sérstaklega en mig langar til að kynnast aðeins sjónarmiðum hæstv. umhverfisráðherra hvað varðar þessar meginreglur. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja vegna 4. gr. þeirra en þar stendur: „Umhverfisvandamál skal eins og kostur er leysa þar sem þau eiga upptök sín.“ Hefur hæstv. ráðherra skoðun á því hve mikið megi flytja af losunarheimildum til Íslands svo það fari ekki að brjóta í bága við þessa reglu, þ.e. að umhverfisvandamál skuli eins og kostur er leysa þar sem þau eiga upptök sín?

Svo langar mig til að spyrja í sambandi við varúðarregluna nr. 5: „Þegar hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum áhrifum á umhverfi og náttúruauðlindir skal skorti á vísindalegri fullvissu ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem geta komið í veg fyrir áhrifin eða dregið úr þeim.“

Telur hæstv. ráðherra að þessar tvær reglur sem ég hef vitnað hérna til gangi saman með hinum mikla innflutningi á losunarheimildum?

Í þriðja lagi: „Í því skyni að tekið sé tillit til umhverfiskostnaðar skal beita hagrænum stjórntækjum í samræmi við meginregluna um að sá sem mengar beri að jafnaði þann kostnað sem hlýst af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum vegna mengunar.“

Finnst hæstv. ráðherra að fríar losunarheimildir sem iðjuverin hafa fengið í áliðnaði á Íslandi gangi upp við þessa reglu og hafi gert?