133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

meginreglur umhverfisréttar.

566. mál
[21:54]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir, en hv. þm. Jóhann Ársælsson byrjaði á því að spyrja um regluna um lausn við upptöku þar sem efnislega segir að umhverfisvandamál skuli þar sem kostur er leysa þar sem þau eiga upptök sín og forðast beri að færa þau til. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni að þessi meginregla endurspeglast m.a. í kröfum sem eru gerðar um magn á ýmsum mengandi efnum sem heimilt er að sleppa og að nota skuli mengunarvarnabúnað í því skyni að takmarka mengun umhverfisins. Ég nefndi engin dæmi um reglur í íslenskri löggjöf en ég tel að eitt skýrasta dæmið um þessa reglu í framkvæmd sé að finna í þeim starfsleyfum sem álverin og járnblendiverksmiðjan á Grundartanga starfa eftir. Þar er byggt á þessu og við höfum náð stórkostlegum árangri með þeim ströngu kröfum sem við erum að gera til álveranna um tæknibúnað og það er nákvæmlega þessi hugsun, að umhverfismál eigi ekki að færast.

Að öðru leyti vil ég segja að þegar ég velti þessari reglu fyrir mér þá er mér hugsað til þeirra þjóða og þeirra ríkja sem eru ekki jafnrík og við af endurnýjanlegum orkugjöfum og þurfa m.a. að afla sér orku með kjarnorkunni. Sú framleiðsluleið er ört vaxandi í heiminum og það eru fleiri og fleiri ríki sem hafa áform um að framleiða raforku með kjarnorku. Það sem er hættulegast í því er þegar menn fara ekki þá leið eins og við þekkjum að grafa kjarnorkuúrganginn djúpt í jörðu til einhverra næstu þúsund ára heldur flytja hann í endurvinnslustöð. Ég tel að sú framkvæmd hjá kjarnorkuverum varðandi úrganginn sé m.a. í ósamræmi við umrædda reglu sem er gegnumgangandi í gegnum Evrópuréttinn og á eins og aðrar í þessum reglum upptök sín í alþjóðlegum samningum sem við og aðrar þjóðir erum aðilar að.