133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

meginreglur umhverfisréttar.

566. mál
[21:58]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Ég er, herra forseti, að reyna að skilja til fulls spurningu frá hv. þingmanni. Annars vegar ræðir hv. þingmaður um regluna um lausn við upptöku og tengir það heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda, hvort hún komi í veg fyrir … (JÁ: Hvort hægt sé að flytja endalaust inn heimildir.) Hvort hægt sé að flytja endalaust inn heimildir. Ég tel að þessi regla komi því í rauninni ekkert við og finnst nauðsynlegt vegna þessarar spurningar hv. þingmanns að árétta að annars vegar eru gerðar mjög strangar kröfur í starfsleyfum til ákveðinnar losunar flúorkolefnis frá álverum. Hins vegar þegar við erum að tala um losun gróðurhúsalofttegunda þá erum við að tala um hnattrænan vanda og það er það sem ég reyndi að leggja áherslu á og hef lagt áherslu á, að ef okkur tekst um allan heim að leysa af hólmi kol og olíu til framleiðslu á raforku og nýta meira af endurnýjanlegri orku hvar sem er í heiminum — og við höfum hugvitið og tæknina sem við getum flutt út og stuðlað að því á heimsvísu — þá er það það sem skiptir máli fyrir hnattræna stöðu mála gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda og gagnvart loftslagsbreytingum. Ég tel ekki að þessi regla snerti það á einn eða annan hátt.

Síðan varðandi greiðsluregluna, að menn eigi að greiða fyrir, þá er það alveg ljóst að samkvæmt þessu frumvarpi um losun gróðurhúsalofttegundanna þá er gert ráð fyrir því að fari menn umfram þær heimildir sem Ísland hefur þá þurfi þeir að borga annaðhvort með kaupum á almennum losunarheimildum eða með því að fjárfesta í skógrækt og landgræðslu. En það segir sig líka sjálft að víða í heiminum er þetta orðinn markaður þar sem menn þurfa að borga fyrir losun.