133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[11:59]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í tilefni af því að augljóst er af atburðum og umræðum síðustu daga í skólasamfélaginu að mikil og vaxandi og djúpstæð undiralda er meðal grunnskólakennara. Hún er m.a. til komin vegna málaloka eftir síðasta verkfall sem endaði með lagasetningu ríkisstjórnar Íslands á verkfall kennara. Verkfallið varð til þess að gríðarlegur fjöldi skóladaga fór í súginn, sex vikna verkfall, 1,5 millj. skóladagar og nú blasir við út af umræðum í skólaasamfélaginu að það stefnir í óefni á nýjan leik. Það blasir við að skapast gæti alvarlegt ástand í grunnskólunum síðar á þessu ári. Það er alvarleg og vaxandi undiralda í skólunum sem stefnir starfi þeirra í uppnám vegna þess að margir kennarar hyggja á uppsagnir sem leitt gætu til fjöldauppsagna grunnskólakennara.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra, þar sem hæstv. menntamálaráðherra gat ekki séð sér fært að vera við upphaf þingfundar, hvort ríkisstjórn Íslands, fagráðherra eða hann sjálfur, sem ber að sjálfsögðu ábyrgð á grunnskólamenntun og fræðslustarfi í landinu, hafi komið að þessu máli, og ekki síst af því að ábyrgð ríkisins er mikil í þessu máli vegna þess að fyrir tveimur árum setti ríkisstjórnin lög á grunnskólakennara, rak þá aftur til starfa, hundóánægða með kjör sín og hlutskipti. Sú óánægja hefur vaxið síðan og er nú orðin að djúpstæðri undiröldu í grunnskólasamfélaginu sem gæti leitt til þess að skólana skorti kennara út af fjöldauppsögnum þeirra. Það er hægt að koma í veg fyrir að þetta ástand skapist með pólitískum aðgerðum ef pólitískur vilji er til staðar. Pólitísk ábyrgð er klárlega hjá ríkisstjórninni. Hún ber ábyrgð á því að hafa rekið kennara aftur til vinnu með lagasetningu fyrir tveimur árum. Hún ber ábyrgð á þeirri alvarlegu undiröldu sem er í skólunum, þeirri óánægju sem er meðal (Forseti hringir.) grunnskólakennara. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort ráðuneyti hans hafi komið að þessu máli með formlegum hætti.