133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Á alþjóðavettvangi þyngist mjög umræðan um að Bandaríkjastjórn undirbúi hernaðaraðgerðir gegn Íran. Enginn gerir lítið úr mikilvægi þess að Íranar fari að alþjóðalögum fyrir sitt leyti, virði ákvæði NPT-samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna og leyfi eftirliti í því sambandi.

Ég hygg að allar þjóðir nema Bandaríkin, þ.e. bandarísk stjórnvöld, vilji að þær deilur verði leystar með friðsamlegum aðferðum. Bandaríkjamenn safna herafla á Persaflóasvæðinu. Flugmóðurskipið John Steiner hefur bæst við Eisenhower sem þar var fyrir. Búið er að senda mikið af Patriot-flugskeytum á svæðið og fleiri hefðbundnar stríðundirbúningsaðgerðir eru í gangi. Þar á meðal hefur Bush Bandaríkjaforseti nýlega gefið út gamalkunnug fyrirmæli um að hefja uppsöfnun olíubirgða ef ófriðvænlega horfi.

Samhliða hernaðaruppbyggingu við landamæri Írans gerist Bush Bandaríkjaforseti æ hvassyrtari í garð stjórnarinnar þar og mörgum þykir það allt saman minna óþægilega á aðdraganda Íraksstríðsins árið 2002–2003. Þótt það kunni að virðast fjarstæðukennt og óðs manns æði í ljósi ófara Bandaríkjamanna í Írak, að hefja nú undirbúning að því að ráðast á enn annað land í Miðausturlöndum, skyldi enginn gefa sér að Bush Bandaríkjaforseti og ný-íhaldsmennirnir sem mestu ráða á bak við hann séu af baki dottnir með sín plön um það.

Þótt loftárásir virðist líklegri en tilraun til innrásar í landið dregur það ekki úr alvöru málsins. Í því sambandi er talað um að beita sérstökum sprengjum, útbúnum til að granda neðanjarðarbyrgjum, búnum kjarnaoddum. Vitað er að Bandaríkjamenn eru með slíkar sprengjur í Miðausturlöndum og það sem verra er, þeir hafa líka selt Ísraelsmönnum slík vopn. Ein möguleg atburðarás er sú að Ísrael verði eins konar undirverktaki Bandaríkjamanna í að grípa þarna til hernaðaraðgerða.

Þá að afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessu sambandi. Með vísan til þess hvernig sporin hræða frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, með þá í broddi fylkingar, fyrrverandi forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, kúventi afstöðu Íslands og studdi ólögmætt árásarstríð gegn Írak, spyr ég nú:

Hafa Bandaríkjamenn leitað hófanna hjá ríkisstjórn Íslands um svipaðan stuðning? Og ef svo er, hver verður þá afstaða ríkisstjórnarinnar?

Ég spyr einnig, að gefnu tilefni, hvort ríkisstjórnin hafi tekið til skoðunar að afturkalla loforð gefin Bandaríkjamönnum í aðdraganda innrásarinnar í Írak um (Forseti hringir.) atbeina í formi afnota af íslensku flugvöllum og lofthelgi.