133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um nein áform Bandaríkjamanna um innrás í Íran. Síðast 2. febrúar síðastliðinn lýsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna því yfir að það stæði ekki til.

Um þetta hafa engin erindi borist íslenskum stjórnvöldum, með ósk um stuðning eða fyrirgreiðslu hér á landi, hvorki formleg né óformleg. Þar sem ekkert slíkt hefur gerst og ekkert bendir til þess að svo verði þá hefur ríkisstjórnin ekki tekið afstöðu til slíks máls. Það er svarið við því. Þar með er fyrsta og öðrum lið spurningar þingmannsins svarað.

En auðvitað er það mikið áhyggjuefni hver þróunin er varðandi kjarnorkuáætlun Írans. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði hvað það varðar. Ýmis ríki beita sér fyrir diplómatískum lausnum í því efni, sérstaklega þrjú stór aðildarríki Evrópusambandsins. En hins vegar er það þannig að Íranar brjóta bæði NPT-samninginn, eins og þingmaðurinn sagði, og ganga gegn ályktunum öryggisráðsins.

Í ályktun öryggisráðsins nr. 1737 var forstjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar falið að skila skýrslu til ráðsins, að ég hygg fyrir lok þessa mánaðar. Þá mun væntanlega skýrast hvað framhaldið verður af hálfu Sameinuðu þjóðanna í þessu máli. Auðvitað hljóta allir að vona að hægt sé að komast að friðsamlegri niðurstöðu, að Íranar geti haldið áfram að þróa kjarnorkuna og nýta hana án þess að auðga úran með þeim hætti að hægt verði að smíða kjarnavopn.

Varðandi þriðju spurningu þingmannsins er því til að svara að sú heimild sem veitt var í mars 2003 til afnota af íslenskum flugvöllum og lofthelgi miðaðist að sjálfsögðu við aðgerðir sem þá voru í gangi gagnvart Írak. Sú heimild hefur ekki formlega verið afturkölluð, en hún á að sjálfsögðu ekki við lengur.