133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stuðningur Íslendinga við innrásina í Írak er enn í fullu gildi. Þessi stuðningsyfirlýsing er ótímabundin. Ég er með hana hérna fyrir framan mig, hún er enn þann dag í dag á vef Hvíta hússins í Washington og þarf engan stjarneðlisfræðing til að finna hana á netinu. Heimild er til að fljúga um íslenska lofthelgi, heimild er til afnota af Keflavíkurflugvelli og stuðningur er við að styðja svokallaða uppbyggingu í Írak eftir að stríðinu þar lýkur, en því stríði er hvergi lokið. Ísland er enn á lista með löndum eins og Albaníu, Aserbaídsjan, Kólumbíu, Dóminíska lýðveldinu, El Salvador, Erítreu, Eistlandi, Georgíu, Hondúras, Litháen, Lettlandi, Makedóníu, Mongólíu, Panama, Rúanda og Úkraínu. Þetta er enn allt saman í fullu gildi. Við getum svo kannski diskúterað það seinna hvort það sé nú þekkilegur félagsskapur að vera á lista með þessum þjóðum í þeim mjög svo vafasama og ég vil segja viðbjóðslega tilgangi.

Stríðið í Írak er í fullu gildi enn þá, það heldur áfram af fullum krafti og heimildin til Bandaríkjamanna (Forseti hringir.) er einnig í fullu gildi.