133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

réttarstaða íslenskrar tungu og staða annarra tungumála í löggjöf og stjórnkerfi.

267. mál
[12:43]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Spurt er:

„1. Hefur ríkisstjórnin aðhafst til að styrkja réttarstöðu íslenskrar tungu eftir að Alþingi vísaði til hennar þingsályktunartillögu um það efni vorið 2004?“

Ekki hefur verið tekin sérstök ákvörðun um að taka meðferð þessarar þingsályktunartillögu fyrir, sem vísað er til í fyrirspurninni, á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hins vegar hafa málefni íslenskrar tungu verið til umræðu á mörgum sviðum, m.a. í tengslum við undirbúning löggjafar og má þar benda m.a. á að í stjórnarskrárnefnd hefur komið til umræðu að setja í stjórnarskrá Íslands ákvæði um að íslenska sé ríkismál.

Einnig má nefna að dómsmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga þar sem miðað er við að færni í íslensku skuli vera meðal skilyrða fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar.

Þá má nefna að í lögum um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem tóku gildi 1. september síðastliðinn, eru ákvæði, eins og hv. þingmaður þekkir, sem varða íslenska tungu og segir þar m.a. að hlutverk Íslenskrar málnefndar sé að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögu til menntamálaráðherra, sem var nýmæli, um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu.

Gera má ráð fyrir að réttarstaða íslenskrar tungu verði síðan meðal þeirra atriða sem sérstaklega verði fjallað um í ályktun Íslenskrar málnefndar, þ.e. réttarstaðan sem slík.

Í öðru lagi er spurt:

„2. Hvaða ráðagerðir eru uppi af hálfu menntamálaráðherra um stöðu alþjóðatungna, norrænna mála og tungumála nýbúa og innflytjenda í löggjöf og stjórnkerfi?“

Eins og fram kemur í greinargerð með fyrrgreindri tillögu til þingsályktunar eru í sumum lögum ákvæði um að reglur, leiðbeiningar og margs konar upplýsingar skuli vera gefnar út á öðrum tilgreindum tungumálum auk íslensku. Þegar tilskipanir Evrópusambandsins eru færðar í íslensk lög er oft óhjákvæmilegt að setja slík ákvæði inn. Minnt er á að ríkisstjórnin hefur samþykkt tilslökun gagnvart birtingu á þýddum textum í Stjórnartíðindum. Ég tel rétt að hafa það þannig að meta verði í hverju tilviki hvort nauðsynlegt er að tryggja í lögum að efni sé birt á fleiri tungumálum en íslensku.

Eftir því sem fleiri útlendingar setjast að á Íslandi og taka virkan þátt í íslensku samfélagi er að mínu mati nauðsynlegt að taka tillit til þess á margvíslegan hátt. Til dæmis er brýnt að ýmsar upplýsingar um réttindi og skyldur borgaranna séu aðgengilegar á tungumálum nýbúa og innflytjenda. Þegar er til eitthvað af slíku efni á mismunandi tungumálum, en betur má ef duga skal. Mestu skiptir hins vegar að einstaklingar sem setjast hér að og eiga sér annað tungumál en íslensku séu hvattir og þeim auðveldað að tileinka sér íslenska tungu. Eins og hv. þingmaður þekkir hefur ríkisstjórnin samþykkt nýlega tillögur mínar og dóms- og félagsmálaráðherra í þeim efnum og framkvæmd þeirra tillagna er nú á fleygiferð og í undirbúningi í menntamálaráðuneytinu. Það er gert til að auðvelda aðgang innflytjenda að því að læra og öðlast ákveðna færni í íslensku, sem við þekkjum og vitum að er lykillinn að samfélagi okkar. Við eigum að leggja ríka áherslu á þann þátt og það erum við að gera.

Eftir því sem aðstæður leyfa er reynt að veita túlkaþjónustu vegna ákveðinna þátta í samskiptum skóla og heimila, nýbúa og innflytjenda og í heilbrigðiskerfinu. Skortur á túlkum og kostnaður hamlar þó oft að hægt sé að veita þá þjónustu sem er æskileg og stundum nauðsynleg. Ísland er aðili að norræna tungumálasáttmálanum en hann kveður á um rétt Norðurlandabúa um túlkun í tengslum við þjónustu á ákveðnum sviðum opinberrar stjórnsýslu.

Þess má einnig geta að menntamálaráðuneytið á aðild að mótun norrænnar málstefnu á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar og mun ráðuneytið fela m.a. Íslenskri málnefnd að fjalla um þau atriði sérstaklega sem snerta íslenska málstefnu.