133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

réttarstaða íslenskrar tungu og staða annarra tungumála í löggjöf og stjórnkerfi.

267. mál
[12:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að svara þeirri spurningu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson bar upp þegar hann hóf upp raust sína í þessari umræðu. Ég tek undir með honum að margar hættur steðja að tungumálum, litlum málsvæðum eins og segja má að Ísland sé og Íslendingar séu. Það er áríðandi að undirstrika mikilvægi íslenskunnar í þessu samfélagi.

Ég get tekið heils hugar undir með þingmanninum að ég tel mikilvægt og brýnt að stjórnarskrárnefnd taki þetta upp. Ég hef ekki setið fundi stjórnarskrárnefndar en mér skilst að menn hafi komið sér saman um ýmsa hluti þar. Ég held að þetta sé tillaga sem menn ættu að geta komið sér saman um því að það er mikilvægt að tryggja réttarstöðu íslenskrar tungu í íslensku samfélagi. Að setja þetta inn í stjórnarskrána held ég að væri afar vel til fundið og undirstrikaði þá mikilvægi bæði íslenskunnar en líka þá stefnu sem við erum að mínu mati öll sammála um í þessum þingsal, ekki bara sem erum hér nú, þetta fámenni hér, heldur við sem iðulega erum hér að störfum. (Gripið fram í.) Við munum fylkja okkur saman um það að reyna að tryggja þessa réttarstöðu íslenskunnar.

Ég vek hins vegar líka athygli á þeim mikilvægu og merkilegu breytingum sem áttu sér stað með sameiningu íslenskustofnananna fimm. Að sjálfsögðu var eitt meginmarkmið og það kom fram í umræðum um sameiningu (Gripið fram í.) á þeim stofnunum öllum í eina öfluga stofnun, að undirstrika mikilvægi íslenskunnar. Við höfum fulla trú á því að m.a. eitt af nýjum hlutverkum íslenskrar málverndar verði að taka á réttarstöðu íslenskrar tungu. Ég tel að hún sé og verði ráðgefandi fyrir stjórnvöld hverju sinni um hvert beri að stefna varðandi stöðu íslenskunnar í samfélaginu.