133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

starf trúfélaga í grunnskólum og framhaldsskólum.

314. mál
[13:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil undirstrika að það er skylda hvers skóla að gera grein fyrir eðli þjónustu sem í boði er í tengslum við skólastarfið. Þetta er gert m.a. í skólanámskránni, sem er starfsáætlun skólans, og samkvæmt lögum á að leggja hana fyrir skólanefnd og foreldraráð líka til umsagnar ár hvert, þannig að foreldrar eiga að hafa aðgang að henni.

Ég vil líka undirstrika að í aðalnámskrá grunnskóla í kristinfræði, trúarbragðafræði og siðfræði eru skýr ákvæði um að í kennslu námsgreinarinnar felist ekki trúboð heldur fræðsla, þ.e. fræðsla um kristni, önnur trúarbrögð og siðfræði. Af því leiðir að vilji grunnskólar nýta sér þjónustu, eins og vinaleiðina, verður að sjálfsögðu að gæta þess að ekki sé um eiginlegt trúboð að ræða.

Í drögum að endurskoðaðri námskrá í kristinfræði, trúarbragðafræði og siðfræði, sem nú liggja fyrir á heimasíðu ráðuneytisins, er vægi trúarbragðafræði og siðfræði enn aukið frá fyrri námskrá sem var gefin út árið 1999.

En ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst skjóta skökku við að heyra að menntamálaráðuneytið eigi að grípa inn í og skipta sér af þeirri þjónustu sem sveitarfélög upp á eigið sjálfdæmi vilja bjóða upp á. Ef sveitarfélögin sem fara með forræði grunnskólanna — og svo virðist vera að það sé hugsanlega að verða stefna Samfylkingarinnar að ríkisvaldið eigi bara að taka yfir grunnskólana aftur, gott og vel, þá segja menn það bara hreint út. En hér er ekki um lögbundna skyldu að ræða. Hér er ekki um sérfræðiþjónustu að ræða varðandi vinaleiðina, heldur er þetta þjónusta sem sveitarfélögin sem slík vilja bjóða upp á og er meira og minna sjálfsákvörðunarréttur þeirra. (Gripið fram í: Það er ábyrgðarleysi.) Ef þau kjósa það þá gera þau það. Að sjálfsögðu er enginn að tala um ábyrgðarleysi. (Forseti hringir.) Við í menntamálaráðuneytinu höfum eftirlit með því að skólarnir fylgi aðalnámskrá, (Gripið fram í.) að skólarnir fylgi því að lögum sé framfylgt. En þjónustan sem tengist vinaleiðinni er þjónusta umfram það sem kveðið er á um í lögum og til þess hafa sveitarfélögin sjálfdæmi að ákveða.