133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

skattlagning tekna af hugverkum.

547. mál
[13:42]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kemst að sjálfsögðu ekki með tærnar þar sem hv. þingmaður hefur hælana varðandi íslenskukunnáttu enda er hv. þm. Mörður Árnason mikilhæfur íslenskumaður og í raun algjör snillingur á sínu sviði. Það vitum við náttúrlega öll sem hér erum og þó að maður sé oft og tíðum ekki sammála því innihaldi sem hann setur fram á snjallri íslensku er engu að síður oft gaman að hlusta á íslenskusnillinginn Mörð Árnason, hv. þingmann.

Varðandi það sem ég var að reyna að segja er það alveg ljóst að svona spurningu er ekki hægt að svara nema við tökum umræðu um skattkerfið á víðtækum grunni. Ég vil biðja hv. fyrirspyrjanda að hlusta og reyna að greina orð mín varðandi það, og það er mín skoðun að við eigum að hafa hér einfalt skattkerfi. Við eigum að hafa undanþágur sem fæstar og við eigum að hafa lága skattprósentu. Það þýðir að ef við ætlum að hafa lága skattprósentu verðum við að hafa færri undanþágur.

Þessar hugmyndir hjá Samtóni og Stefi eru allrar athygli verðar og ég er tilbúin að ræða þetta við listamennina og sjá hvaða hugmyndir og frekari rökstuðning þeir hafa fram að færa til að styðja við þann málflutning sinn að lægri skattprósenta verði tekin af hugverkaréttindum.

En ég er ekki reiðubúin til þess hér og nú að segja já við því að lækka skattprósentuna eða skatttekjurnar eða skattinnheimtuna á hugverkaréttindum því ég tel að við verðum að ræða þessi mál í samhengi og ekki pikka bara mál út úr skattumhverfinu sem eru til þess fallin hverju sinni og allir geta sammælst um að málin séu góð. Þessi mál eru til þess fallin að maður geti veitt þeim stuðning sinn en ég segi enn og aftur: Ég vil hafa hér lága skattprósentu og einfalt skattkerfi. Það þýðir færri undanþágur.