133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

486. mál
[13:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hinn 16. janúar lagði ég fram tvær fyrirspurnir til hæstv. umhverfisráðherra um loftslagsmál, til munnlegs svars, þá sem nú liggur fyrir um reglur um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá stóriðju og öðrum uppsprettum og hins vegar bað ég um skriflegt svar við fyrirspurn sem var í fjórum liðum og nokkrum undirliðum. Það svar barst í dag en er reyndar því miður ekki enn þá búið að dreifa í þinginu.

Í því svari og í fréttatilkynningu um það frumvarp sem umhverfisráðherra ætlar að flytja kemur fram svar ráðherrans við þessari mánaðargömlu munnlegu fyrirspurn. Ráðherrann svarar hinni skriflegu fyrirspurn minni um það hver losun koltvísýrings verður þegar áform sem nú eru uppi um álver hafa gengið eftir. Þá er aðeins átt við þau álver sem þegar hafa starfað og hugsanlega stækkun Alcans í Hafnarfirði.

Svarið er að heildarlosunin er 1.710 þús. tonn á ári en kvótinn samkvæmt Kyoto er 1.600 þús. tonn á ári, þ.e. á síðasta árinu, árið 2012, verður staðan þannig að losunin er 1.710 þús. tonn að gefnum þessum forsendum en leyfið 1.600 þús. tonn.

Þetta ætlar ráðherrann að leysa með meðaltalsaðferðinni, leggja saman losunina á árunum 2008–2012, þau fimm ár, og deila í með fimm. Þetta er í fyrsta sinn sem umhverfisráðherra lýsir þessu yfir af þeim umhverfisráðherrum sem hafa setið í þessari ríkisstjórn. Það eru merkar fréttir vegna þess að hingað til hafa umhverfisráðherrar farið í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut.

Þar að auki kemur óljóst fram í skriflega svarinu að formlega á að standa við Kyoto-samkomulagið með því að álverin annaðhvort rækti skóg, sem er góð hugmynd, eða kaupi kvóta sem er raunhæfari hugmynd, og kaupi hann inn í hinar almennu heimildir Íslendinga. Það þýðir að ef Íslendingar ná að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda og leggja þar með lið baráttunni í heiminum gegn þeirri vá sem stafar af almennri hlýnun, sem er eitthvert mesta vandamál og úrlausnarefni samtímans og okkar kynslóða, fyllist hann aftur undir eins af kvóta álveranna.

Ég vil hafa þennan inngang að fyrirspurninni nákvæmlega svona og óska eftir að umhverfisráðherra haldi áfram að ræða þessi mál almennt í þeim dúr og skýri betur sitt skriflega svar sem fullt (Forseti hringir.) tilefni er til.