133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

þjóðarátak gegn lélegri umgengni um landið.

538. mál
[13:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla í þessari fyrirspurn minni að beina sjónum að Framsóknarflokknum og stefnu hans í umhverfismálum. Það væri í sjálfu sér forvitnilegt að skoða hana í víðu samhengi en ég hef ákveðið að takmarka fyrirspurn mína við ákveðið atriði í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins frá árinu 2005 þar sem í kaflanum „Úrgangur og sorpmál“ var kveðið á um að umhverfisráðuneytið þyrfti að standa fyrir þjóðarátaki gegn lélegri umgengni um landið og uppsöfnun úrgangs þar sem hann á ekki heima. Jafnframt segir í ályktuninni að nauðsynlegt sé að skerpa á heimildum yfirvalda til að gera ráðstafanir gagnvart aðilum sem sýna málinu skilningsleysi.

Í þessari sömu ályktun frá flokksþingi Framsóknarflokksins 2005 er svo fjallað um loftslagsmál sem er kannski forvitnilegt í samhengi við þá fyrirspurn sem var á dagskrá á undan þessari, þ.e. loftslagsmálin, en þar hefur Framsóknarflokkurinn númer 1, 2, og 3 á sinni stefnuskrá að minnka svifryksmengunina frá samgöngum og tryggja það að loftmengunarsáttmáli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar verði leiddur í lög á Íslandi.

Það er kannski útúrdúr frá því sem ég hér ræði. Mig langar til að fá svör frá hæstv. umhverfisráðherra við því á hvern hátt þessi stjórn umhverfisverndar undir forsæti Framsóknarflokksins hafi sinnt fyrrnefndri ályktun Framsóknarflokksins. Hefur umhverfisráðuneytið staðið fyrir þjóðarátaki gegn lélegri umgengni um landið og uppsöfnun úrgangs þar sem hann á ekki heima? Hefur umhverfisráðuneytið skerpt á heimildum yfirvalda til að gera ráðstafanir gagnvart aðilum sem sýna málinu skilningsleysi? Hvert er álit hæstv. umhverfisráðherra á ástandi þessara mála?

Við vitum að ríkisjarðir eru t.d. í umsjá þeirra sem hafa með þessi mál að gera á sviði ríkisstjórnarinnar. Það er sannarlega hægt að sinna þar málum að því er virðist betur en raun ber vitni. Rétt er að fá að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra hvernig hún hefur sinnt t.d. þeim í þessu tilliti. Svo að lokum spyr ég hvaða tillögur hæstv. ráðherra hafi fram að færa til að ná fram úrbótum svo að um muni. Í mínum huga er ekkert annað en verulegt átak sem gera þarf í þessum málum. Ég sé þess ekki stað að slíkt hafi verið gert frá 2005 þannig að það verður forvitnilegt að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við þessari fyrirspurn.