133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aflagning dagabátakerfisins.

246. mál
[14:13]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir þessa spurningu sem auðvitað þarf að svara í nokkrum orðum.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að dagabátakerfið var á margan hátt mjög áhugavert kerfi og skilaði heilmiklu. Ég er líka sammála hv. þingmanni um það að vel er hægt að stjórna með sóknartakmarkandi aðgerðum. Þegar við höfum í áranna rás staðið frammi fyrir því að fjalla um dagabátakerfið hefur oft verið rætt um það með hvaða hætti við gætum varið þetta kerfi með því að setja inn sóknartakmarkandi þætti. Þess vegna var auðvitað, og það var öllum ljóst, til að mynda á þeim tímum sem hv. þingmaður var að rifja upp, að valið stóð aldrei um það að verja það kerfi algjörlega óbreytt án sóknartakmarkandi þátta. Það var alltaf inni í myndinni, og það var líka rætt á vettvangi Landssambands smábátaeigenda, að setja inn í þetta sóknarstýrandi þætti sem mundu þá virka til þess að takmarka þann afla sem þessi bátaflokkur var að draga að landi. Menn getur greint á um það hversu mikið sóknartakmarkandi þeir þættir ættu að vera en alltaf var gengið út frá því að verið væri að reyna að hafa áhrif á það að lækka heildaraflann eða a.m.k. að koma í veg fyrir að hann ykist frá því sem hann hafði verið.

Þetta varð hins vegar ekki niðurstaðan og ég ætla út af fyrir sig ekkert að fara í þá sögu. Niðurstaðan varð sú að þessir bátar fóru inn í krókaflamarkskerfið og þess í stað var þeim færður fiskveiðiréttur í formi kvóta sem ekki mældist í dögum heldur í tonnum. Það er alveg ljóst að eins og við skoðum þessi mál fengu þessir bátar mjög verulegan veiðirétt, svo mikinn raunar að mjög margir urðu til þess að gagnrýna það að verið væri að ívilna þeim með einhverjum hætti. Ég tel að það hafi nú ekki verið þannig.

Hver hefur þróunin verið síðan? Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, færaaflinn hefur minnkað. Hann hefur minnkað verulega og hann hefur auðvitað minnkað mest í þeim byggðum þar sem hann var mjög mikill fyrir. Ástæðurnar eru ýmsar. Það er í fyrsta lagi aflagning dagakerfisins, það gefur augaleið. Í öðru lagi hefur verið minni afli á grunnslóð í nágrenni margra þeirra staða sem nutu dagakerfisins hvað mest.

Það er enginn vafi á því að línuívilnunin sem slík hefur líka haft þessi áhrif. Hún gaf línuveiðunum forskot sem aðrar veiðiaðferðir höfðu ekki. Við sjáum að línuívilnunin hefur m.a. haft áhrif á stöðu ýmissa annarra veiðarfæra, við sjáum að netaveiðarnar hafa dregist saman o.s.frv. þó að þar séu fleiri ástæður undirliggjandi. Síðast en ekki síst, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, hafa orðið til öflugir línubátar og færaútgerðin stóðst þeim hreinlega ekki snúning. Við tókum ákvörðun áður að leyfa stækkun þessara báta upp í 15 tonn og möguleikar þeirra urðu einfaldlega meiri. Þetta var hins vegar gert til þess að koma til móts við sjónarmið byggðanna um það að geta haft öruggari hráefnisöflun og það hefur á margan hátt tekist í mjög mörgum þessara byggðarlaga. Færabátarnir róa á sumrin eins og allir vita. Það skipti miklu máli fyrir atvinnulífið á þeim tíma þó að misjafnt væri hversu mikið yrði eftir og færi til fiskvinnslu á þessum stöðum. Línubátarnir róa hins vegar allan ársins hring. Stóru bátarnir, sem hafa verið gerðir út, eru eins og vertíðarbátar að því leyti að þeir hafa skapað ótrúlega mikla vinnu, miklar tekjur. Við sjáum að þrátt fyrir að færaaflinn hafi dregist saman í mörgum þessara verstöðva hefur aukningin í línuveiðunum verið gífurlega mikil á þessum stöðum langflestum. Auðvitað eru undantekningar á báða vegu. Á norðanverðum Vestfjörðum — svo að ég taki þá sem dæmi af því að þar voru þessir færabátar með mikinn afla á sumrin — hefur þróunin orðið sú að línuaflinn hefur aukist gríðarlega á krókaflamarksbátunum. Aflaheimildirnar hafa verið að færast yfir á þá báta — það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi í þessu sambandi — og sú aukning hefur í mörgum tilvikum orðið meiri á línuna en svarar minnkuninni í færaaflanum og þetta er þó afli sem veiðist allan ársins hring.

Ég átti satt best að segja von á því, þegar ég velti þessum málum fyrir mér í vetur, að tilflutningarnir á milli byggðarlaganna — af þeim ástæðum að færaaflinn hefur minnkað og línuaflinn hefur aukist — hefðu orðið meiri en raun ber vitni. Auðvitað eru þeir til staðar, ég neita því ekki, það er staðreynd, en tilflutningarnir eru samt minni en ég hugði.

Ég treysti mér ekki til þess að svara þessari spurningu eingöngu með einu orði. Ég vil samt sem áður segja að ég tel að sú þróun sem hefur orðið upp á síðkastið með auknum styrk smábátakerfisins hafi orðið hinum dreifðu byggðum til góðs. Ég sé til dæmis að línuívilnunin hefur verið að nýtast byggðum sem höfðu átt undir högg að sækja. En dreifingin, hin landfræðilega dreifing á línuívilnuninni, er þó meiri en ég bjóst við og það finnst mér mjög jákvætt.