133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

laun sjómanna og lífskjör á landsbyggðinni.

448. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Í kjölfar umræðu á Alþingi um sjávarútvegsmál var hæstv. sjávarútvegsráðherra boðið í viðtal á útvarpsstöðinni Útvarp Saga. Þar fór hann mikinn og sagði m.a. í viðtali við Jóhann Hauksson, þann 7. desember sl., þegar hann færði rök fyrir því kerfi sem hefur nú lagt landsbyggðina meira og minna í rúst, því miður, a.m.k. höggvið djúp skörð í sjávarbyggðir landsins, að þetta kerfi hafi stuðlað að hærri launum sjómanna og betri lífskjörum á landsbyggðinni. Þess vegna langar mig að spyrja: Í hvaða gögn er hæstv. ráðherra að vísa? Hvað er hann að vísa í í þessu viðtali? Hvernig rökstyður hann þetta?

Nú sést vel ef skoðuð eru útsvör á landsbyggðinni, sérstaklega þar sem áhrifa sjávarútvegsins gætir mjög, að launakjör þar hafa dregist aftur úr kjörum fólks m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Það væri því fróðlegt að fá að heyra einhver rök fyrir þessu hjá hæstv. ráðherra og einnig um hin bættu lífskjör sem þetta kerfi á að færa landsbyggðinni. Á hann við það þegar enginn annar getur hafið starfsemi í undirstöðuatvinnugrein byggðanna? Ég veit í rauninni ekki hvað hæstv. ráðherra á við með þessum málflutningi. Það væri fróðlegt ef hann vísaði í einhver gögn máli sínu til stuðnings. Ef ekki, þá er þetta einfaldlega ómerkilegt skvaldur í hæstv. ráðherra.

Því miður er það svo að hluti sjómanna þarf að leigja til sín aflaheimildir. Á Alþingi í haust var nefnd talan 10 milljarðar sem rynni út úr greininni í leiguviðskiptum. Færa má rök fyrir því að einn fimmti af heildartekjum sjávarútvegsins renni út úr honum og komi ekki til skipta sjómanna. Ég er miklu frekar á því að þetta kerfi hafi skaðað kjör sjómanna.

Síðan verður hæstv. ráðherra líka að muna eftir þeim sjómönnum, sem margir hverjir eru á línubátunum sem hann vísaði til í umræðunni um fyrri fyrirspurn, sem hafa engan kjarasamning. Það er nefnilega svo að þeir sem eru á bátum sem eru undir 15 tonnum hafa engan kjarasamning. Þeir eru jafnvel verr settir en blaðburðarbörn á Íslandi hvað það varðar.

Maður undrar sig á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli í raun bera það á borð fyrir alþjóð að kjörum sjómanna sé borgið með þessu kerfi og hag byggðanna í landinu. Ég skora á hæstv. ráðherra að færa einhver rök fyrir þessum orðum sínum.