133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

laun sjómanna og lífskjör á landsbyggðinni.

448. mál
[14:29]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda því fram og hef aldrei haldið því fram að fiskveiðistjórnarkerfi okkar tryggi hag og kjör allra sem starfa í sjávarútvegi né allra sjávarútvegsbyggða. Það er langt frá því. Ég hef margoft sagt að það hefur á vissum stöðum haft neikvæð áhrif. Ég hef aldrei gert lítið úr því og alltaf viðurkennt það, m.a. í umræðu um daginn þegar við fjölluðum um byggðakvótamál.

Þegar við ræðum kaup og kjör í sjávarútvegi er rétt að reyna að styðjast við staðreyndir. Varðandi laun sjómanna, af því að það er vikið að þeim í þessari fyrirspurn, þá mótast þau og ráðast heilmikið af ytri aðstæðum. Þau ráðast m.a. af verðlagningu á fiski á erlendum mörkuðum vegna þess að hluti tekna sjómanna byggir á því. Það ræðst ekki síst af genginu. Áhrif gengisins eru mjög mikil, fyrst á þá sem flytja beint út og síðan hefur það áhrif á verðlagninguna á fiski. Núna er staðan eins og við vitum sú að verðlagning á fiski er í langflestum tegundum í hæstu hæðum. Gengið hefur verið tiltölulega jákvætt en það hefur verið að styrkjast nokkuð upp á síðkastið.

Þegar við skoðum þetta í samhengi, við skulum reyna að gera það af því að hv. þingmaður er að kalla eftir því, sjáum við t.d. að launaþróun í fiskvinnslu er þannig miðað við árin 1997–2006, tæplega tíu ára skeið þá er það einfaldlega þannig að þegar maður ber saman launavísitöluna í landinu og laun í fiskvinnslu þá hefur þetta nokkurn veginn fylgst að. Ef við skoðum þessar meðaltalstölur er það þannig. En auðvitað hafa ýmsar atvinnugreinar verið að hækka laun sín hraðar en nemur meðaltalinu en ef við skoðum þetta í samhengi við meðaltalið þá er það þannig.

Ef við skoðum síðan fiskverðið, við skulum taka þorskinn sérstaklega því hann hefur mest vægi, þá endurspeglast verð hans, hvort sem er í beinni sölu á innlendum mörkuðum, á erlendum mörkuðum eða landfrystum afurðum, í launum sjómanna. Fiskverð hefur hækkað á þessu ári, langt umfram það sem nemur launavísitölunni. Það er vegna þess að fiskverð á erlendum mörkuðum er hærra en áður og gengi krónunnar lægra en það var á árinu 2005. Það hefur þessi jákvæðu áhrif. Ég ætla ekki að þakka kvótakerfinu þetta. Ég segi einfaldlega að laun sjómanna og laun í sjávarútvegi ráðast af fjöldamörgum þáttum.

Hins vegar er það alveg rétt að gífurlegar breytingar hafa orðið í sjávarútvegi okkar, að hluta til vegna fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er ljóst að það hefur stuðlað að tiltekinni þróun sem hér hefur oft verið gerð að umtalsefni. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að fólki fækkar í sjávarútvegi þannig að heildarumsvifin hafa minnkað. Við eigum að fagna þeirri þróun í sjálfu sér, að tæknibreytingarnar eigi sér stað í sjávarútvegi. Það hefur dregið úr yfirvinnu í fiskvinnslu í landi, það þekkjum við, og vitaskuld hefur það áhrif á heildarlaun fólks í fiskvinnslu.

Hv. þingmaður talaði um þátttöku í kvótakaupum sjómanna. Ég hef margoft gert það að umræðuefni og vonandi munu birtast innan tíðar tillögur um að taka á því máli. Það er að vísu mat forustumanna sjómanna að þátttaka í kvótakaupum sé minna vandamál en oft áður. Engu að síður er ljóst að við þurfum að herða á í þessu sambandi, herða eftirlitið og eftirfylgnina í þessum efnum. Ég hef margoft lýst mig reiðubúinn til þess.

Varðandi síðan hitt sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í lokin þ.e. stöðu sjómanna sem starfa á krókamarksbátum, bátum innan við 12 tonn, að þá er það alveg rétt að þeir eru án kjarasamninga. Það er hins vegar ekki hlutverk stjórnvalda, allra síst sjávarútvegsráðherra, að skipta sér af því eða koma með beinum hætti að þeim kjarasamningum. Þar eiga auðvitað aðilar málsins að koma sér saman og auðvitað eiga að gilda í þessum efnum kjarasamningar. Slíkt er til staðar í einstökum byggðarlögum þar sem menn hafa komið sér saman um tilteknar lágmarksreglur. Vonandi tekst mönnum að gera slíka samninga víðar á landinu en það væri auðvitað fráleitt að við sem löggjafarþing færum að skipta okkur af þessu og hafa áhrif á þetta. Þetta eiga aðilar vinnumarkaðarins að klára sin á milli.