133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands.

245. mál
[14:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands. Spurning mín hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hyggjast samgönguyfirvöld greiða niður allt farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands?

Þannig er málum háttað að nú er flogið milli höfuðborgarsvæðisins og Vestmannaeyja og að sjálfsögðu til baka aftur. Það flug var tekið upp nýverið með stórum vélum og er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni. En þetta flug er niðurgreitt með verulegum fjárhæðum úr ríkissjóði.

En það er nú svo, virðulegi forseti, að það er ekki bara Flugfélag Íslands sem stendur fyrir flugrekstri milli Vestmannaeyja og lands.

(Forseti (JóhS): Forseti vekur athygli á því að hæstv. ráðherra sem á að svara þessari fyrirspurn er ekki kominn í salinn og ég býst nú við að hv. þingmaður vilji gjarnan að hæstv. ráðherra hlýði á mál hans)

Já, forseti. Ég mætti ráðherra á ganginum þegar ég gekk í salinn, hann getur því varla verið langt undan.

(Forseti (JóhS): Ég skal ekki taka tíma hv. þingmanns, en við skulum aðeins hinkra eftir ráðherranum.)

Ég vík þá úr ræðustól en reikna með að ég fái að byrja aftur á núllpunkti hvað varðar tímasetningu þegar hæstv. ráðherra kemur í salinn. — Þar kemur hæstv. ráðherra.

Ég hygg að hæstv. ráðherra sé vel kunnugt um hvaða fyrirspurn ég ber upp, en hún er um farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands. Ég var kominn aðeins á flug í þessum inngangi mínum. Þar var komið sögu að ég var farinn að tala um að það væri ekki bara Flugfélag Íslands sem stundaði farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands, heldur eru þar líka aðrir flugrekstraraðilar.

Okkur er kunnugt um að flugið milli höfuðborgarsvæðisins og Vestmannaeyja og aftur til baka er niðurgreitt með verulegum fjárhæðum úr ríkissjóði. Ég vil í sjálfu sér ekki gera neinar athugasemdir við það.

Hins vegar eru fleiri flugrekstraraðilar eins og ég minntist á áðan í inngangi mínum. Ég nefni Flugfélag Vestmannaeyja sem hefur flogið um margra ára skeið milli Bakka og Eyja. Þar hefur verið mjög góður rekstur að því best er séð og að sjálfsögðu verið mjög gagnlegt fyrir samgöngur milli Vestmannaeyja og lands um nokkurra ára skeið.

Lagt hefur verið í verulegar fjárfestingar, til að mynda á Bakkaflugvelli. Flugbrautin þar hefur verið endurbætt mikið og reist ný flugstöð, vegabætur á Bakkavegi og annað þar fram eftir götunum. Ekki ætlum við að fara að lasta það, langt í frá.

Hins vegar leikur mér hugur á að vita hvort hæstv. samgönguráðherra og samgönguráðuneytið, ríkisstjórnin, hafi íhugað hvort það sé ekki hreinlega ósanngjarnt að þetta flug njóti ekki svipaðra ívilnana og það flug sem er á milli höfuðborgarsvæðisins og Vestmannaeyja.