133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands.

245. mál
[15:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hyggjast samgönguyfirvöld greiða niður allt farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands?“

Svar mitt er svohljóðandi: Í lok september síðastliðinn ákváðu samgönguyfirvöld að bjóða út ríkisstyrkt áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja eftir að Landsflug ehf. hafði hætt áætlunarflugi á leiðinni.

Auk þess var ákveðið að gera skammtímasamning um flug á framangreindri leið með fjárhagslegum stuðningi. Vegagerðin gerði í kjölfarið samning við Flugfélag Ísland hf. til tíu mánaða um styrk til að fljúga þrettán áætlunarferðir á viku milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.

Undirbúningur er hafinn á útboði á styrktu áætlunarflugi á flugleiðinni Reykjavík/Vestmannaeyjar. Að því búnu verður gerður samningur við þann bjóðanda sem lægst býður að því gefnu að hann uppfylli allar kröfur útboðsins. Áætlunarflug samkvæmt framangreindum samningi er það farþegaflug sem samgönguyfirvöld hyggjast greiða niður á flugleiðinni Reykjavík/Vestmannaeyjar.

Við þetta er því að bæta að íbúar og forsvarsmenn bæjarfélagsins í Vestmannaeyjum hafa lagt ríka áherslu á að tryggt og öflugt flug væri frá höfuðborginni til Vestmannaeyja og fögnuðu þeir mjög þessari ákvörðun og lýstu stuðningi við hana. Enda tel ég að mikilvægt sé fyrir byggðina í Vestmannaeyjum að gott samband sé við höfuðborgarsvæðið, gott samband milli Reykjavíkurflugvallar og Vestmannaeyjaflugvallar og það sé stöðugt og tryggt flug svo þjónustan sé sem best. Svar mitt er því það, að þetta er sá leggur, sú leið sem boðin hefur verið út og gert er ráð fyrir að styrkja.