133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands.

245. mál
[15:03]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Bara örstutt innlegg í umræðuna. Út af fyrir sig tel ég það mjög jákvætt að samið sé um flugleiðina milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og hún styrkt til að halda megi uppi eðlilegum og öruggum samgöngum við höfuðstað landsins.

Það breytir hins vegar ekki því að það er annað flugfélag sem stundar flug upp á land, á Bakka. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. samgönguráðherra hvort þurfi ekki að líta til þeirrar samkeppni sem þarna er, hvort tveggja eru flugsamgöngur þó annar staðurinn sé vissulega höfuðborg landsins og þangað erum við að skipuleggja mörg flug og greiðum víða niður eða á nokkrum stöðum flugfargjöld. Þarna er um ákveðna samkeppni að ræða og væri eðlilegt að mínu viti að það yrði skoðað í samræmi (Forseti hringir.) við það.