133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vegrið.

292. mál
[15:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði þó viljað heyra aðeins skýrar hvað samgönguyfirvöld eru að hugsa varðandi víravegrið á öðrum stöðum. Hæstv. ráðherra sagði að ætlunin væri að setja upp slík vegrið þar sem það á við. Það hefði verið fróðlegt að fá að heyra nánar hvað menn eru að hugsa í þeim efnum. Mér heyrist á máli ráðherra að verið sé að skoða þetta á fleiri stöðum en í Svínahrauni og því held ég að fróðlegt væri að fá að heyra einhverjar hugmyndir um það.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra upplýsti um reynsluna af víravegriðinu í Svínahrauni eru það að sjálfsögðu jákvæðar fréttir að reynslan skuli hafa verið í samræmi við væntingar. Einnig að slys af völdum slíkra víravegriða hafi ekki verið alvarleg, a.m.k. enn sem komið er, og að reynslan frá nágrannalöndunum sýni að það hafi ekki orðið alvarleg slys til að mynda á bifhjólafólki í Noregi eða í Skotlandi, þó að ég hyggi, án þess að hafa kynnt mér það nánar, að þar séu aðstæður kannski að mörgu leyti með öðrum hætti en hér á landi. Við þyrftum að skoða það betur.

Það er alveg hárrétt sem hér kemur fram að vegurinn um Svínahraun er of mjór, hann hefði þurft að vera breiðari. Hann er óþægilega þröngur og að mörgu leyti skapar þetta óþægindi til að mynda í erfiðri færð og öðru þar fram eftir götunum. Þetta eru næstum því eins og járnbrautarteinar, það er mjög erfitt að snúa við ef eitthvað ber út af. Það er að sjálfsögðu mikill galli á því að velja þetta.

Ég tek náttúrlega undir það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði áðan, að framtíðarlausnin ætti náttúrlega að vera 2+2 vegur. Hin mjög svo góða og jákvæða (Forseti hringir.) reynsla okkar af Reykjanesbrautinni ætti að færa okkur heim sanninn um það.