133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aðgangur að háhraðanettengingu.

508. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef á undanförnum árum nokkrum sinnum tekið þetta málefni upp í þinginu um háhraðanettengingar í formi fyrirspurna og þingsályktunar um að Alþingi vísi því til ríkisstjórnar að tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að háhraðanettengingu fyrir tilskilinn tíma. Ástæðan er einfaldlega sú að hér er um að ræða eitt af mikilvægustu málefnunum í dag. Þetta er eitt af mikilvægustu byggðarmálunum, fjarskiptamál. Auk aðgengis að menntun, heilbrigðisþjónustu og almennum samgöngum skipta fjarskiptin, GSM-samband og háhraðanettenging sköpum varðandi það hvort fólk ílengist á tilteknum stað úti á landi eða ekki. Aðgangur að háhraðaneti er algjört grundvallaratriði í dag. Það er að verða jafnsjálfsagt og aðgangur að síma, rafmagni, rennandi vatni o.s.frv. Þetta er sem sagt að verða hluti af grunnþjónustunni sem samfélagið þarf að tryggja.

Í svari samgönguráðherra við fyrirspurn minni fyrir tveimur árum kom fram að 22 þús. Íslendingar væru án háhraðanettengingar. Í svari ráðherra í vetur kom fram að þeir væru orðnir 5 þús. Ég held að það sé að einhverju leyti út af því að breytt var um skilgreiningu á því hvað væri háhraði, viðmiðið var lækkað þannig að takmarkaðri tenging teldist til háhraða. Allt um það, þá eru mörg svæði úti á landi þar sem ekki er háhraðanettenging, t.d. þar sem ég á heima þannig að ég þekki málið mætavel. Nokkur einkafyrirtæki eins og eMax, Ábótinn og fleiri bjóða upp á örbylgjusamband sem er að sjálfsögðu ágætt og miklu skárra en símatengingin, en það jafnast á engan hátt á við háhraðanettenginguna.

Samgönguyfirvöld hafa að mér skilst borið því við að þau geti ekki farið inn á þessi svæði með niðurgreiddri háhraðaþjónustu af því að þarna ríki samkeppni. Þetta er engin samkeppni í reynd, örbylgjutengingar og alvöru háhraðanettengingar eru ekki sambærilegar. Við þurfum á sem allra skemmstum tíma að tryggja það að allir Íslendingar hafi aðgang að háhraðanettengingu. Þess vegna spyr ég: Hvenær er gert ráð fyrir að svo verði og hver er áætlaður kostnaður við að tryggja öllum landsmönnum slíka tengingu óháð búsetu?

Við verðum einfaldlega að ráðast í það verkefni að tryggja öllum Íslendingum háhraðanettengingu. Þetta er algjört grundvallarmál og eitt af stærstu málum kosninganna í vor, að mínu mati, að fá það fram að næsta ríkisstjórn sem tekur við eftir 12. maí haldi áfram með verkefnið og tryggi að þetta verði gert burt séð frá öllu öðru, að allir Íslendingar hafi háhraðanettengingu inni á sínu heimili. Það er verkefni stjórnvalda, þetta er einn af grunnþjónustuliðunum sem stjórnvöld eiga að tryggja jafnræði í. Það eru engin jöfn tækifæri eða jöfn búsetuskilyrði úti á landi á við höfuðborgina nema þetta sé tryggt.