133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aðgangur að háhraðanettengingu.

508. mál
[15:31]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það mun hafa verið á kynningarfundi á Vestfjörðum þar sem kynntur var annar áfangi þessarar áætlunar um háhraðanet á landinu sem var spurt hvenær væri talið að honum lyki. Því var ekki hægt að svara og jafnframt sagt að ekki væru til nægir peningar til að ljúka öðrum áfanga.

Þó að hæstv. ráðherra vilji ekkert láta uppi um áætlunarkostnað hlýtur samt að vera einhver hugmynd til um það hvað þarf mikið til þessa verks miðað við þær upplýsingar sem komu fram á fundinum. Og nú langar mig til að vita hve mikið vantar upp á, svona um það bil, til að ljúka þessu verki.

Svo var að heyra sem hæstv. ráðherra væri hissa á því að samstaða hefur verið góð um fjarskiptaáætlun en fjarskipti á landinu eru auðvitað hluti af grunnforsendum lífsins í dag og þess vegna er að sjálfsögðu almenn samstaða um að koma því í lag, og þótt fyrr hefði verið.