133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aðgangur að háhraðanettengingu.

508. mál
[15:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra umræður og svör um þetta mikilvæga mál. Það liggur fyrir að það eigi að bjóða út þetta verkefni, að tryggja það að allir hafi aðgang að háhraðanettengingu. Mér finnst skipta mjög miklu máli að hæstv. ráðherra gefi ádrátt um það, nú er þessu kjörtímabili að ljúka, hvort við séum að tala um árið 2008 eða 2009. Ég held að við þurfum að hraða þessu alveg gífurlega.

Hæstv. ráðherra talaði um markaðsbrestinn. Þangað sem hagnaðarvonin dregur samskiptafyrirtækin ekki til að bjóða upp á háhraðanettengingar þarf opinber afskipti. Þetta er partur af grunnþjónustunni að mínu mati, alveg skilyrðislaust.

Markaðsbresturinn elur af sér búsetubrest á þeim svæðum þar sem ekki er um að ræða háhraðatengingu. Íbúar þessara dreifðu byggða þurfa að vita — og þar skiptir hver einasti mánuður máli, það get ég fullyrt — hvort hilli undir það á þessu ári, á næsta ári eða ekki fyrr en á þarnæsta ári að hvert einasta heimili á landinu sem óskar þess hafi aðgang að háhraðanettengingu. Það skiptir gífurlegu máli. Þetta er pólitískt markmið. Síðan er það spurning hvort hæstv. ráðherra gefi upp kostnaðaráætlun á verkefninu eða ekki. Ég held að hann geti alveg áfallalaust gefið upp grófa kostnaðaráætlun um hvort við séum að ræða um þetta marga eða hitt marga milljarða. Gróf kostnaðaráætlun hlýtur að liggja fyrir án þess að skaða hagsmuni ríkisins út af útboðum. Ég skil það vel. Grófur kostnaður og eins pólitískt markmið hlýtur að liggja fyrir, pólitísk skuldbinding ríkisstjórnar Íslands um það hvenær hvert einasta heimili á Íslandi sem óskar eftir því hafi aðgang að háhraðanettengingu. Þetta skiptir gífurlega miklu máli skal ég fullyrða.