133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

Grímseyjarferja.

539. mál
[15:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem er svohljóðandi:

1. Hvenær er áætlað að nýja Grímseyjarferjan verði tilbúin til notkunar, og hvenær átti hún að vera tilbúin samkvæmt útboði?

2. Hvert var kaupverð ferjunnar?

3. Hver var samningsupphæð vegna viðgerða samkvæmt útboði?

4. Hver verður heildarkostnaður ferjunnar að lokinni allri viðgerð?

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég legg þessa fyrirspurn fram er sú að fréttir hafa borist um að þarna gangi ekki allt eins og það átti að gera. Eins og mönnum er kunnugt um var í nóvember 2005 keypt gamalt skip frá Írlandi fyrir 100 millj. kr. og voru áætlaðar endurbætur upp á 150 millj. kr. Síðan gerist það að tíminn sem átti að fara í þessar viðgerðir verður miklu lengri en áætlað hafði verið.

Enn fremur berst okkur til eyrna, virðulegi forseti, að upphæðin sé að verða 350–400 millj. kr., þ.e. kaupverðið á gamla skipinu frá Írlandi og viðgerðin sem var áætluð samkvæmt útboðsgögnum um 100 millj. kr. Að minnsta kosti 50 millj. í viðbót hafa fallið til, og kannski eru ekki öll kurl komin til grafar hvað það varðar, og einnig hefur verið keyptur einhver aukabúnaður í skipið fyrir 50 millj. kr. Þannig að þetta fer að nálgast 350–400 millj. kr. þegar Grímseyjarferjan verður loks tilbúin hvenær sem það svo verður.

Virðulegi forseti. Mig langar að fá athygli hæstv. samgönguráðherra vegna þess að mér hefur líka borist það til eyrna úr þessum skipasmíðageira — mér er ákaflega illa við að bera fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem verið er að trufla þessa stundina. En ég vildi geta þess — það er innlegg í fyrirspurnina sem hæstv. ráðherra mun svara — að í skipasmíðageiranum hér á Íslandi er talað um að 29 metra langur togari í nýsmíði kosti 350–400 millj. kr., ekki meira, sem er svipuð upphæð og kaupverðið á þessari gömlu ferju frá Írlandi, plús útboð og plús allur sá aukakostnaður sem fellur til.

Nú er mér sagt að ekki sé mikill munur á að byggja lítinn togara eða ferju, það sé að sjálfsögðu munur á útbúnaði en kostnaðurinn sé svipaður. Virðulegi forseti. Ég vil bæta einni spurningu við fyrirspurn mína og spyrja (Forseti hringir.) hvort þarna sé ekki eitthvað mikið að og hvort eitthvað hafi ekki farið úrskeiðis við kaup og vinnu og viðgerð á þessari ferju.