133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

393. mál
[15:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég býð hæstv. landbúnaðarráðherra velkominn heim úr frægri Kanaríeyjaferð þar sem hann fundaði á Klörubar með framsóknarmönnum í skugga skoðanakannana og annarra atburða hér heima, en gott að fá hann heim aftur.

Ég er með mikilsverða fyrirspurn til ráðherrans og spyr hann hvort unnið sé að sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Ef svo er, hvenær er stefnt að sameiningunni? Ég spurði hæstv. ráðherra að því fyrir tveimur árum hvort til stæði að sameina þær stofnanir og hvort undirbúningsvinna að slíkri sameiningu væri hafin þar sem stofnanirnar vinna að mjög svipuðum markmiðum og voru upphaflega ein og sama stofnunin og unnu eftir sömu lögum. Í þá sameiningu yrði að sjálfsögðu að fara á jafnréttisgrunni o.s.frv. og rökin fyrir því væru mjög mörg. Hæstv. ráðherra svaraði því þannig til að hann útilokaði ekki að til þeirrar sameiningar gæti komið og fara þyrfti rækilega yfir það mál, eins og hann orðaði það.

Því spyr ég hann að þessu núna undir lok kjörtímabilsins hvort þeirri vinnu hafi fleygt eitthvað fram. Hvort hafið sé einhvers konar undirbúnings- eða sameiningarferli af því að það mundi að mínu mati, ef vel tækist til, skila sér í skilvirkara og markvissara starfi beggja stofnana sem vinna að sömu markmiðum í grunninn sem er að græða upp landið og efla skógrækt í landinu. Nýjar og öflugar aðferðir kæmu til sögunnar, aukin kynning á kortum og mikilvægi skógræktar og landgræðslu og þekkingarflæði á milli þessara tveggja stofnana þar sem býr eftir áratugastarf mikil og verðmæt þekking á þessum málum sem skiptir okkur Íslendinga mjög miklu máli. Nýja stofnunin mundi þá t.d. hafa eftirlit með framkvæmdaraðilum á þessum sviðum og stunda rannsóknir og þróun samhliða því. Þetta yrði því mjög mikilvæg vísindastofnun í umhverfi okkar einnig þannig að ávinningurinn yrði mikill ef að vel tækist til og ef farið væri í samvinnuna á jafnréttisgrunni.

Landgræðslan er umfangsmikil starfsemi en starfsemi Skógræktarinnar er það ekki að sama skapi. Í raun hefur starfsemi hennar þynnst svolítið út að því leyti að mörg staðbundin skógræktarverkefni eru í gangi sem heyra ekki beint undir skógræktina. Ég held því að mikilvægt væri að stokka þetta upp, sameina stofnanirnar á jafnréttisgrunni og úr yrði mjög öflug vísinda-, rannsóknar- og landgræðslustofnun sem mundi þjóna okkur Íslendingum og jarðarbúum öllum mjög vel á tímum örra loftslagsbreytinga sem að sjálfsögðu hafa mikil áhrif líka á gróðureyðingu, minnkandi gróðurþekju jarðar o.s.frv. Þetta er mikið umhverfis- og landbótamál. Þess vegna inni ég hæstv. ráðherra eftir svörum í umræddu máli.