133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

ummæli þingmanns um útlendinga.

[10:39]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að draga úr þeirri ógn sem okkur Íslendingum stafar af innflutningi fíkniefna hvort sem er af völdum Íslendinga eða útlendinga. Hins vegar sagði hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson í ræðu sinni fyrir viku að farið væri að handtaka þekkta hryðjuverkamenn á Keflavíkurflugvelli. Menn vita auðvitað að samkvæmt íslenskri málvenju er þá ekki átt við fíkniefnasala eða innflytjendur fíkniefna. Útskýringar hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar eru því ekkert annað en aumir útúrsnúningar og ég held að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins ættu að sýna manndóm sinn í því að biðja bæði þing og þjóð afsökunar á ummælum hv. þm. Valdimars Leós Friðrikssonar og ekki hvað síst að biðja hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur afsökunar. Þetta er dæmi um málflutning sem Frjálslyndi flokkurinn viðhefur á hinu háa Alþingi og sýnir fram á það hversu ómarktækur og ómerkilegur málflutningur Frjálslynda flokksins er.

Ég lít svo á að þessi ummæli hv. þingmanns séu dæmd dauð og ómerk og hann sé ómerkingur orða sinna.