133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:05]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stjórnmál snúast um nútíðina og framtíðina en fortíðin er vissulega mikilvæg líka, sérstaklega til að læra af henni.

Sú skýrsla sem hér liggur fyrir er á margan hátt mjög merkileg og margt áhugavert sem kemur fram í henni, bæði hvað varðar eftirlit með íslenskum borgurum en kannski ekki síst líka hvað varðar eftirlit með erlendum sendimönnum hér á landi. Þar er margt mjög áhugavert sem kemur fram, til að mynda það að fylgst var mjög grannt með sendimönnum frá Varsjárbandalagsríkjunum svokölluðu. Fundað var daglega í útlendingaeftirlitinu og farið yfir hvar þessir menn væru, hvað þeir væru að gera, hvert þeir væru að fara og annað fram eftir götunum.

Ég held að skýrslan, þó að hún sé á margan hátt mjög góð, segi okkur ekki alla söguna. Mjög margt er ósagt af þeirri merku sögu sem átti sér stað hér á landi á kaldastríðsárunum og ég er alveg sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan, að við fáum þessi mál ekki á hreint nema við hreinlega afléttum sekt eða veitum þeim sakaruppgjöf sem hugsanlega hafa komið að þessum málum og mér finnst mjög mikilvægt að við gerum það. Mér finnst mjög mikilvægt fyrir okkur að okkur takist að kortleggja almennilega þessa sögu, því að margt er afskaplega merkilegt sem átti sér stað á þeim árum og ég held að við getum dregið af því mikinn lærdóm. Enn er mjög margt ókannað, fleiri kílómetrar, hillumetrar eru af skjölum sem ekki hafa verið skoðuð, rúmlega 40 bretti af skjölum frá Pósti og síma sem ekki hefur tekist að fara í gegnum. Ég vil gera það að tillögu minni, virðulegi forseti, að vinnu við að kanna þessi gögn verði hraðað og að öllum þeim sem áttu aðkomu að þessum málum og eru lifandi enn þann dag í dag verði hreinlega veitt sakaruppgjöf í því sem þeir hugsanlega hafa tekið þátt í (Forseti hringir.) þannig að við fáum kortlagða þessa atburði.