133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:08]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og ég lýsi ánægju minni með þá skýrslu sem hér liggur fyrir verð ég að segja að mér þykir þessi umræða og umræðutilefnið mjög athyglisvert því sú skýrsla sem liggur fyrir er í raun bara einhvers konar upphafskönnun, könnun á því sem fram hefur komið og tillögur um hvernig eigi að vinna málið áfram. Þess vegna þykir mér mjög athyglisvert að bæði hv. málshefjandi, Bjarni Benediktsson, og hæstv. forsætisráðherra skuli treysta sér til að draga jafnstórar ályktanir af því sem komið hefur fram og nánast gert tilraun til að slá striki yfir fortíðina og segja: Sjáið þið, þær ásakanir, sem haldið hefur verið fram, eiga ekki við rök að styðjast.

Kjarni málsins er vitaskuld sá að það á algerlega eftir að rannsaka þessi mál, það á eftir að fara yfir þessi gögn. Eins og hv. málshefjandi kom að áðan er þetta í kílómetravís sem á eftir að fara yfir og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson nefndi einnig að í brettavís megi finna gögn um símhleranir og úrskurði. Það á eftir að fara yfir öll þessi mál og það sem stendur upp úr í þessari umræðu er spurningin: Hvers vegna eru menn nú að reyna að slá striki yfir þessa sögu og draga stórar ályktanir í máli sem algerlega á eftir að skoða? Það er umhugsunarvert og á sama hátt er einnig umhugsunarvert þegar umræða sem þessi fer fram skuli henni vera beint til hæstv. forsætisráðherra í stað þess að beina henni að stjórnarandstöðunni sem væri miklu eðlilegra því umræðan snýst um að gera ummæli sagnfræðinga og stjórnmálamanna ótrúverðug og slá striki yfir einhverja sögu.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þessi umræða er afar athyglisverð og eftirtektarvert að menn skuli (Forseti hringir.) treysta sér til að draga jafnstórar ályktanir af jafnmiklu og nú liggur fyrir í þessu máli.