133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Starf nefndarinnar er góðra gjalda vert svo langt sem það nær, þ.e. hvað varðar aðgang að skjölum og því um líku sem í aðalatriðum á eftir að rannsaka, óhemjumikið magn gagna. Samtímis hefur hins vegar gengið ákaflega illa að fá stjórnvöld til að horfast í augu við ábyrgð sína og má ég minna á að hæstv. dómsmálaráðherra hefur ítrekað á Alþingi neitað að svara upplýsingum, neitað að upplýsa um þætti sem lúta að stofnunum undir honum, eins og útlendingaeftirlitið áður og lögreglu nú.

Þeim liggur mikið á, málshefjanda og forsætisráðherra, að reyna að réttlæta símhleranir og pólitískar njósnir á tímum kalda stríðsins. En er það ekki dapurlegt að í þessum sölum skuli þingmenn og hæstv. ráðherrar koma og réttlæta það í raun að einkasímar alþingismanna voru hleraðir vegna þess að verið var að gera landhelgissamning við Breta? Er það ekki ömurlegt að menn skuli ekki hafa meiri metnað en þann fyrir persónufrelsi, persónuvernd, lýðræðinu, þingræðinu og þeim störfum sem hér eru unnin, að menn leggist svo lágt að reyna að segja: Þetta var allt í lagi af því að það voru dómsúrskurðir? Auðvitað voru þetta hreinar pólitískar hleranir. En út undan stendur alveg sá þáttur sem ekki hefur verið ræddur hér og lýtur að spjaldskrárhaldi, lýtur að merkingum á pólitískum skoðunum manna inn í kartótek sem var notað og hvernig stjórnmálaflokkarnir með sínar skrár og stjórnvöld mötuðu leyniþjónustu Bandaríkjanna í sendiráðinu og leyniþjónustu hersins á Keflavíkurflugvelli um slíkar upplýsingar þannig að fólk með tilteknar stjórnmálaskoðanir væri ekki ráðið.

Þessu máli er hvergi nærri lokið, það er rétt að byrja og það sem þarf auðvitað að gera er að fara í tæmandi rannsókn á þessu og gera þennan kafla síðan upp heiðarlega og sómasamlega með svipuðum hætti og gert hefur verið í Noregi.