133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:12]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er athyglisvert hvað þessi sagnfræði, rúmlega hálfrar aldar gömul snertir pólitíska kviku, viðkvæma kviku hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þeir koma hér upp og gera það að umtalsefni að stjórnarandstaðan hafi verið að leggja þessi mál út á versta veg. Um það kvartaði hæstv. forsætisráðherra, að lagt hafi verið út á versta veg.

Við skulum rifja upp þessa umræðu í vor. Þá voru einmitt stjórnarliðar dregnir inn í þessa vinnu og í rauninni píndir til að gera þessa skýrslu. Það eru staðreyndir málsins og meira að segja þurfti að pína hæstv. dómsmálaráðherra til að fara yfir þessi gömlu hlerunarmál þó svo alþjóð viti að hann sé einstakur áhugamaður um hleranir. Að vísu virðist vera sem hæstv. dómsmálaráðherra hafi líka séð þarna ákveðna gleði í þessu vegna þess að þá gat hann komist inn í tíma kalda stríðsins og rifjað upp þær stundir þar sem hann naut sín virkilega. Þetta er mjög merkilegt mál út frá því sjónarhorni hvað þetta snertir djúpt pólitíska kviku í stjórnarflokkunum sérstaklega. Og mér finnst þetta vera hið undarlegasta mál hvað hæstv. forsætisráðherra er kvartsár undan þessari umræðu, umræðu sem við ættum öll að vera þakklát fyrir að fá þessi gögn upp á yfirborðið.