133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég tel það eðlilega ráðstöfun að tvöfalda ræðutímann í þessari umræðu. Eftir að samgönguáætlun varð svo viðamikil sem raun ber vitni er ákaflega óeðlilegt að ætla þingmönnum að ræða samgönguáætlun, sem nær yfir vegamál, hafnamál og flugmál, á átta mínútum. Enn óeðlilegra er að ætla mönnum að ræða á átta mínútum þessar áætlanir tvær, fjögurra ára og tólf ára. Mér finnst eðlilegt að menn tvöfaldi ræðutímann og styð ákvörðun þar um.

Mér finnst í sjálfu sér ekkert athugavert við það að skipta umræðum í tvennt þannig að menn taki fjögurra ára umræðuna sér og tólf ára umræðuna sér. Ég sé ekki ástæðu til að leggjast gegn því og ég hreyfi engum andmælum við áformum forseta um það efni að öðru leyti en því að þá er nauðsynlegt að ræða fjögurra ára áætlunina fyrst og síðan tólf ára áætlunina vegna þess að ef það er gert í þeirri röð sem forseti áformar er seinni umræðan í raun og veru óþörf. Umræðan um fjögurra ára áætlunina fer auðvitað fram undir umræðum tólf ára áætlunarinnar.

Við sjáum í skjölunum að allar tillögur um framkvæmdir næstu fjögurra ára eru líka í tillögunni um framkvæmdirnar næstu tólf ár þannig að það er ekki hægt að aðskilja þetta með þeim hætti.

Þess vegna held að það sé nauðsynlegt ef það á að þjóna einhverjum tilgangi að skipta umræðunni í tvennt að gera það með þeim hætti að snúa röðinni við frá því sem forseti áformar.

En ég held líka að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, að upplýsa hver hreyfir andmælum við því að áætlanirnar verði ræddar saman. Andmæli verða ekki sett fram nema á þingfundi. Andmæli eru ekki sett fram í reykfylltum bakherbergjum svo að ég noti nú þekktan orðafrasa úr nýlegri stjórnmálaumræðu. Andmæli eru ekki sett fram í lokuðum herbergjum á fundum ótilgreindra aðila með forseta. Andmæli eru aðeins sett fram í þingsalnum á þingfundi rétt eins og þegar menn afgreiða mál til nefndar og forseti segir: Málið er afgreitt til þessarar og þessarar nefndar án atkvæðagreiðslu ef enginn hreyfir andmælum. Andmælin verða að koma fram þar og þá en ekki á undan í lokuðum herbergjum, virðulegi forseti.