133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:29]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að staðfesta orð hæstv. forseta og rifja það upp að á fundi korter fyrir fjögur í gær með formönnum allra þingflokka og forseta kom þetta mál til umræðu. Menn urðu sammála um að beina því í þann farveg sem hæstv. forseti leggur hér upp. Þess vegna skil ég ekki af hverju hv. þm. Össur Skarphéðinsson fer núna fram á að breyta því sem var samkomulag um í gær.

Varðandi ákvörðun forseta um að hafa þetta aðskilið, m.a. vegna tilmæla frá þingmanni, finnst mér það bara sýna að forseti hlustar á þingmenn, og slíkum athugasemdum geta menn komið á framfæri við forseta utan þingsalar og hafa gert. Það er hlutverk forseta að hlusta á vilja þingmanna og bregðast við.

Mér finnst skipta mestu máli í þessu að formenn þingflokka voru sammála um þá aðferð sem hér er lagt upp með og ég held að við ættum þess vegna að hætta að fjalla hér um tæknileg atriði og fara að ræða það sem er á dagskrá, samgönguáætlun sem hv. þingmenn hafa lengi beðið eftir að fá að ræða.