133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér fer fram mikil umræða um það hvernig þessi umræða skuli fara fram. Það er svo sem rétt að ræða það áður en hún hefst, fullseint eftir á, en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að menn eigi ekki alveg að gleyma því sem undir er, þ.e. að hér eru samgönguáætlanir til annars vegar fjögurra og hins vegar 12 ára, þær eru viðamikið mál og ég lýsi fullum stuðningi við að nægur tími sé gefinn til að ræða þær. Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég held að þó að þetta hefði verið rætt saman með tvöföldum ræðutíma hefði það verið fullknappt. Ég styð það algjörlega að þetta sé þá rætt í tvennu lagi og lýsi mig sammála hv. þm. Halldóri Blöndal sem hér hefur komið fram að muni vera upphafsmaður þess enda liggur honum væntanlega mikið á hjarta um málið, og út af fyrir sig gerir mér það líka.

Þá er bara eftir að velta fyrir sér hvort betra sé að ræða á undan fjögurra ára áætlunina eða rammann, 12 ára áætlunina. Ég hefði heldur hallast að því að betra hefði verið að ræða fjögurra ára áætlunina fyrst. Þá eru menn að ræða einstök verkefni og skiptingu fjármuna næstu fjögur árin en það tímabil gengur síðan inn í 12 ára vegáætlun og í raun og veru ganga tölurnar inn á fyrsta tímabili en útlistun þeirra er í hinu plagginu. Heldur er ég hallur undir að það hefði átt að snúa þessu við, virðulegur forseti, en það skiptir svo sem ekki öllu máli. Menn geta rætt almennu stefnumótunina fyrst, fjármunina sem til ráðstöfunar eru o.s.frv., en útfærslu þeirra í nánari atriðum og skiptingu á eftir. Það má vissulega færa rök fyrir hvoru tveggja. Svo held ég að það sé ágætt að þegar menn eru búnir að ræða það eins lengi og þá langar til hvernig eigi að ræða málin byrji menn svo á málinu sjálfu.