133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:45]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að ég geri ekki athugasemdir við úrskurð forseta um það hvernig þetta fari fram. Það sem þó hefur verið mjög athyglisvert í þessari umræðu hefur dregið mjög skýrt fram að það er verulegur ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna (Gripið fram í.) um það hvernig þetta mál skuli rætt. Það er ljóst að áætlanirnar voru lengi í herbúðum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna og sá ágreiningur kemur einmitt í ljós hér núna, m.a. taldi hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir þéttbýlismenn lítinn áhuga hafa á samgöngumálum sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mótmælti. Hv. þm. Halldór Blöndal vill ræða áætlanirnar hvora í sínu lagi vegna þess að mönnum liggi mikið á hjarta og það er augljóst að það er mikill ágreiningur meðal ríkisstjórnarflokkanna um málið. Umræðan hefur dregið það fram og ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er kannski kominn tími á að fara að hefja þessa umræðu til að við getum þá fengið það fram hvar ágreiningurinn liggur og hvort enn og aftur sé um ótrúverðuga áætlun að ræða eins og áætlanirnar hafa verið undanfarin ár.