133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur að einu umfram öllu öðru, þ.e. að svíkja loforð sín í samgöngumálum, svíkja stóru kosningaloforðin og nota samgönguáætlun sem kosningabrellu korteri fyrir kosningar; skera síðan allt heila bixið niður og svíkja stóru orðin, svíkja stóru verkefnin og það þekkjum við öll.

Ég spyr því hæstv. ráðherra sérstaklega um eitt stærsta loforðið hér, sem ég vona að sé ekki kosningabrella Sjálfstæðisflokksins, en það er að tvöfalda eigi Suðurlandsveg og reyndar Vesturlandsveg líka. Í áætluninni stendur ekki einu orði að tvöfalda eigi veginn heldur eigi að breikka og aðskilja akstursstefnur. Þetta er ákaflega loðin og losaraleg útfærsla. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Á einu sinni enn að svíkja stærstu kosningaloforðin með losaralegu og loðnu orðavali? Af hverju stendur ekki skýrum stöfum í áætluninni að fara eigi í þessar framkvæmdir tveir plús tveir, þessar tvær meginleiðir eins og hæstv. ráðherra talar um og lætur túlka orð sín annars staðar?